Það helsta sem er að gerast:
- Talsmaður Lækna án landamæra segir ástandið í Mariupol skelfilegt og nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða þar strax.
- Forsætisráðherra Ísraela hitti Vladimír Pútín í dag og flaug svo strax í kjölfarið til fundar við Olaf Scholz kanslara Þýskalands.
- Alls hafa 56 flóttamenn komið hingað til Íslands frá Úkraínu síðan innrás Rússa hófs.
- Antony Blinken og Dmytro Kuleba, utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Úkraínu, hittust á landamærum Póllands og Úkraínu í dag.
- Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, óskaði eftir frekari aðstoð Bandaríkjanna á Zoom-fundi með öldungadeildaþingmönnum í dag.
- Haft er eftir Vladimir Pútín að leiðtogar Úkraínu þurfi að skilja að ef þeir halda áfram á sömu braut sé hætta á að Úkraína missi sjálfræði sitt sem sjálfstætt ríki. Ummælin er forsetinn sagður hafa látið falla á fundi í Moskvu.
- Rússneski herinn hefur samþykkt að leggja tímabundið niður vopn sín til að almennir borgarar geti flúið borgirnar Maríupol og Volnovakha. Vopnahléð tímabundna hófst klukkan 10:00 að staðartíma eða 07:00 GMT. Þetta segir í rússneskum fjölmiðlum en fréttir af vopnahléi hafa ekki fengist staðfestar af úkraínskum yfirvöldum.
- Unnið er að því að koma um tvö hundruð þúsund manns frá hafnarborginni Maríupol í dag og um fimmtán þúsund frá Volnovakha. Borgarstjórn Maríupol býður upp á sætaferðir frá borginni.
- Ráðamenn í borginni Kherson greindu frá því í gær að Rússar hafi ekki staðið við loforð sín frá því á fimmtudag um að hleypa almennum borgurum út úr borginni og vistum inn í hana.
- Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, segir NATO hafa gefið grænt ljós á frekari sprengjuárásir á Úkraínu með því að samþykkja ekki flugbann yfir Úkraínu. Hann mun ávarpa öldungadeild Bandaríkjaþings í dag.
- Rússnesk fjarskiptayfirvöld hafa lokað fyrir aðgang Rússa að samfélagsmiðlunum Facebook og Twitter sem og fjölmörgum erlendum fréttasíðum.
