Innlent

Öfgar höfnuðu samstarfi við Róbert Wessman

Smári Jökull Jónsson skrifar
Félagasamtökin Öfgar.
Félagasamtökin Öfgar. Aðsend

Félagasamtökin Öfgar neituðu beiðni Róberts Wessman um aðstoð við verkefni sem sneri að opnun nýs úrræðis fyrir þolendur ofbeldis. Öfgar segja að Róbert sé ekki einstaklingur sem samræmist þeirra gildum.

Þetta kemur fram í svari forsvarskvenna Öfga við fyrirspurn fréttastofu. Þar segja þær að talskona Róberts Wessman hafi haft samband við hópinn í byrjun janúar. Erindið var að fá Öfgar til að aðstoða við verkefni sem sneri að opnun nýs úrræðis fyrir þolendur ofbeldis. Greiða átti fyrir aðstoðina.

Öfgar segja að tilfinning þeirra frá upphafi hafi verið sú að eitthvað annað lægi að baki en brennandi áhugi fyrir málefnum þolenda en vilja ekki fullyrða um hvort nota ætti hópinn til að koma höggi á aðra.

Þá segja forsvarskonur Öfga að með einfaldri leit á netinu hafi þær séð að Róbert væri einstaklingur sem samræmdist ekki gildum Öfga. Þær segja að þeim hafi fundist þetta undarlegt á sínum tíma og að nú þegar auka púsl sé komið í spilið þá sé tímasetning beiðninnar um samstarf frekar grunsamleg.

Róbert fjármagnaði vef Kristjóns

Þetta auka púsl sem Öfgar eiga við er væntanlega fréttin sem birtist í gær þar sem Kristjón Kormákur Guðjónsson, ristjóri vefmiðilsins 24.is, viðurkenndi að hafa brotist inn á skrifstofur Mannlífs í janúar síðastliðnum.

Hann viðurkenndi innbrotið í hlaðvarpinu Mannlífið með Reyni Trausta sem birtist á vef Mannlífs í gærkvöldi. Þar sagði hann einnig að Róbert hefði tekið þátt í fjármögnun 24.is með framlagi upp á tugi milljóna króna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×