Hann er í hópi hátt í tuttugu innfæddra og aðfluttra íbúa Bolungarvíkur sem fram koma í þættinum Um land allt. Þar spyrjum við meðal annars um ríginn milli Ísfirðinga og Bolvíkinga, sem gat stundum endað með slagsmálum.
„En þeir voru margir hraustir, Bolvíkingarnir, þannig að það var kannski ekkert álitlegt að fara í þá,“ segir Sigurður, sem segist hafa flutt í Bolungarvík til að kynbæta stofninn með því að ná í konu þaðan.

Í þessum seinni þætti af tveimur um nyrstu byggð Vestfjarða kynnumst við áhrifum bættra samgangna á byggðina. Ný fyrirtæki vaxa og gróska er í húsbyggingum. Opnun útsýnispalls býður upp á fleiri tækifæri og væntingar eru um fiskeldi.
Þátturinn er endursýndur á Stöð 2 í dag, sunnudag, klukkan 14.10. Einnig má nálgast hann á Stöð 2+.
Hér má sjá sjö mínútna kafla úr þættinum: