Björgunarsveitir voru kallaðar út í gær til að leita að ferðamanni á Mælifellssandi.
„Þetta var ágætlega umfangsmikið sem skapast fyrst og fremst vegna þess að aðstæður á hálendinu eru svona erfiðar núna. Það er byrjað að blotna ansi mikið í. Þannig að við fáum mikið af krapa og bara hreinlega ógeði. Þannig að við þurftum að sækja, þrátt fyrir að við vissum svona sirka hvar viðkomandi var, þá þurftum við að sækja að viðkomandi úr að minnsta kosti þremur áttum. Þannig að við vorum að reyna að komast upp frá Emstrum, yfir Mýrdalsjökul og upp Skaftárdal vegna þess að við vissum hreinlega ekki bara hvað væri besta leiðin. Við vorum komin með nokkra tugi vélsleða, við vorum komin með þrjá snjóbíla og töluvert af mannskap.“
Þetta er í annað sinn á um viku sem björgunarsveitir eru kallaðar út til að leita að erlendum ferðamönnum í vanda. Fyrir viku þurfti að aðstoða ferðamenn á Vatnajökli.
„Aðstæður hafa verið leiðinlegar í vetur. Það er búið að vera mjög umhleypingasamt og mikið af lægðum og við vitum það öllsömul hérna sem búum og þetta hefur auðvitað komið ferðamönnum á óvart. Það kemur alltaf erlendum ferðamönnum á óvart þessar umhleypingar bara innan dagsins og nokkurra daga. Við erum kannski með rigningu að morgni. Svo bara frystir seinni partinn og allt það sem er blautt er þar af leiðandi frosið og fólk á oft erfitt með að mæta þessum aðstæðum.“

Hann segir fjölda fólks koma að útköllum sem þessum og að vinnustundirnar séu taldar í þúsundum. Veturinn hefur reynst björgunarsveitunum óvenju annasamur en færð og veður hafa haft sitt að segja.
„Það er langt síðan að við höfum upplifað svona jafn annasama tíð og verið hefur undanfarið en við ráðum alveg við þetta og erum með margar björgunarsveitir og marga sjálfboðaliða en þetta hefur verið ansi kröftugur tími núna frá áramótum.“