Skoðun

Stöðvum stjórn­leysið í rekstri borgarinnar

Andrea Sigurðardóttir skrifar

Alls starfa nú rúmlega 60 starfsmenn á skrifstofu miðlægrar stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Undir hana heyrir skrifstofa borgarstjóra en á tæpum áratug, fram til ársins 2018, jókst kostnaðurinn við rekstur skrifstofunnar úr 157 milljónum króna í 800 milljónir, eða um 510 prósent. Árið 2019 voru gerðar skipulagsbreytingar sem gera samanburð eftir það snúinn, en þróunin virðist hafa verið öll í eina átt í Ráðhúsinu í tíð núverandi borgarstjóra.

Reykjavíkurborg er með 10 upplýsingafulltrúa þegar stærstu fyrirtækin í Kauphöll Íslands, sem sum velta tugum milljarða króna árlega, hafa aðeins einn. Sum hafa engan. Á þessu kjörtímabili hafa skuldir borgarinnar aukist um 100 milljarða króna og eru núna um 400 milljarðar. Rekstrarkostnaður borgarinnar á hvern íbúa er um 20% hærri en hjá nágrannasveitarfélögunum.

Þetta eru skýrar birtingarmyndir þeirrar óráðsíu sem hefur einkennt rekstur borgarinnar undir stjórn Dags B. Eggertssonar. Dagur hefur verið borgarstjóri í 8 ár en borgarfulltrúi í tvo áratugi og lengst af í meirihluta. Það sem er dapurlegast við stjórnartíð Dags er að útþaninn rekstur Reykjavíkurborgar hefur ekki skilað sér í bættri þjónustu við borgarbúa. Þvert á móti hefur lögbundin þjónusta verið vanrækt. Sorphirðu, þrifum og almennri umhirðu er ábótavant. Biðlistar á leikskólum lengjast og ef börn eru svo heppin að fá pláss er það oft í órafjarlægð frá heimili. Nauðsynlegu viðhaldi og endurnýjun skólahúsnæðis (Fossvogur) og íþróttaaðstöðu fyrir börn (Laugardalur) er ekki sinnt þrátt fyrir hávært ákall og örvæntingu foreldra.

Það er kominn tími á breytingar. Reykvíkingar eiga betra skilið. Við þurfum nýja forystu undir stjórn leiðtoga sem mun reka borgina af festu og forgangsraða í þágu þjónustu við borgarbúa. Sá leiðtogi er Hildur Björnsdóttir. Þess vegna mun ég kjósa hana í 1. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í dag og hvet alla sjálfstæðismenn til að gera slíkt hið sama.

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fer fram dagana 18. og 19. mars. Kjörstaðir eru opnir til 18 báða dagana.

Höfundur er viðskiptafræðingur.

Inngangur greinarinnar hefur verið uppfærður með nákvæmari upplýsingum.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×