Körfubolti

NBA: Úlfarnir áfram á siglingu

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Það gengur vel hjá Timberwolves þessa dagana
Það gengur vel hjá Timberwolves þessa dagana EPA-EFE/ERIK S. LESSER

Minnesota Timberwolves hélt áfram góðu gegni sínu í NBA deildinni í nótt þegar að liðið bar sigurorð af ríkjandi meisturum Milwaukee Bucks, 138-119. Þeir Anthony Edwards og Karl Anthony-Towns skoruðu 25 stig hvor fyrir Timberwolves en Khris Middleton skoraði 15 stig fyrir Bucks.

Sigurinn þýðir að Minnesota er komið ennþá nær hinu mikilvæga sjötta sæti sem gefur beinan rétt á sæti í úrstliakeppninni án þess að fara í umspil en liðið er komið upp a hlið Denver Nuggets.

Lánleysi Los Angeles Lakers hélt áfram þegar liðið heimsótti Washington Wizards í höfuðborg Bandaríkjanna. Heimamenn í Wizards sigruðu 127-119. Lettinn Kristaps Porzingis skoraði 27 stig fyrir Wizards en kóngurinn sjálfur, Lebron James skoraði 27 stig fyrir Lakers sem eru sem stendur í umspilssæti.

Í Charlotte unnu heimamenn í Hornets fínan sigur á Dallas Mavericks, 129-108. Mikilvægur sigur fyrir Hornets í baráttunni um umspilið í austurdeildinni. Miles Bridges skoraði 23 stig fyrir Hornets en Luka Doncic skoraði 37 fyrir Dallas.

Cleveland Cavaliers unnu góðan heimasigur á Detroit Pistons, 113-109. Cavaliers eru í harðri baráttu um efstu sex sætin í austurdeildinni og var sigurinn því mjög mikilvægur en lítið er eftir af tímabilinu. Darius Garland hélt áfram að fara á kostum í liði Cavs en hann skoraði 25 stig og gaf 12 stoðsendingar. Jerami Grant átti stórleik fyrir Pistons og skoraði 40 stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×