Hamilton lenti í 3. sæti í kappakstrinum í Barein um helgina, fyrstu keppni tímabilsins. Ferrari-mennirnir Charles Leclerc og Carlos Sainz tóku efstu tvö sætin.
Báðir ökumenn Red Bull, heimsmeistarinn Max Verstappen og Sergio Pérez, þurftu að hætta keppni sem gaf Hamilton tækifæri á að ná 3. sætinu.
Eftir keppnina á sunnudaginn gerði Wolff lítið úr möguleikum Hamilton og Mercedes á heimsmeistaratitli í ár.
„Ef þú lítur á goggunarröðina núna virðist það vera ansi fjarlægt að svo mikið sem hugsa um að eiga möguleika á að vinna heimsmeistaratitil ökumanna og bílasmiða,“ sagði Wolff hreinskilinn.
„Við fengum eins mörg stig eins og við gátum fengið og þurfum að byggja á því. Hver einasta helgi telur. En eins og staðan er núna þurfum við að vera raunsæir. Þegar þú ert þriðji geturðu ekki hugsað um að vinna titla,“ bætti Wolff við.
Mercedes-menn hafa ekki langan tíma til að finna lausnir á vandamálum síðustu keppni því næsti kappakstur er strax um næstu helgi, í Sádí-Arabíu.
Hamilton varð heimsmeistari með Mercedes 2014-15 og 2017-20 en í fyrra þurfti hann að sjá á eftir heimsmeistaratitlinum til Verstappens.