Um eða yfir tíu milljónir manna hafa verið flæmdar á flótta frá heimilunum sínum vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Af þeim hafa rúmlega 3,5 milljónir flúið yfir landamærin til nágrannaríkja í vestri, aðallega Póllands.
Í dag var hin 49 ára Angela Martyn frá Dnipro héraði meðal þeirra sem komu til Przemyśl í Póllandi.
„Það er mjög ógnvekjandi að yfirgefa heimilið sitt. Ég tók áhættuna og flúði með dóttur mína en ættingjar mínir eru of hræddir til að fara að heiman. Eldri dóttir mín með barnið sitt var of hrædd til að fara. Hvernig á hún að komast af? Drengurinn hennar er bara fjögurra ára. En það er ekki bara ógnvekjandi þar heldur líka hérna í Póllandi. Við vitum ekki hvert við eigum að fara núna,“ sagði Angela ný komin til Póllands.

Borgarstjórinn í Przemyśl segir ástandið þó hafa verið rólegt síðustu daga þar sem aðeins átta þúsund flóttamenn hafi komið á degi hverjum.
Íbúar borga sem Rússar hafa hernumið hafa haldið uppi mótmælum gegn setuliðinu. Rússar dreifðu mótmælendum á Frelsistorginu í Kherson í gær með því að varpa höggsprengjum og táragasi og hleypa af byssuskotum að fólkinu, eins og sést í meðfylgjandi sjónvarpsfrétt.
Volodymyr Zelenskyy forseti Úkraínu kallar rússnesku hermennina þræla sem skjóti á frjálst fólk.

„Þeir eru þrælar áróðurs sem hefur breytt vitund þeirra. Þeir eru þrælar sem hafa vanist því að troða fólki í lögreglurútur, jafnvel ömmum með hvíta borða eða stúlkum með pappírsblöð með orðinu friður,“ sagði Zelensky í daglegu sjónvarpsávarpi til þjóðar sinnar og hvatti alla til að berjast gegn innrásarliðinu með öllum tiltækum ráðum.
Rússar birtu sjálfir í dag myndir af árásarþyrlum sínum og herflutningalest með skriðdrekum og vörubílum með Grad sprengjuvörpur. Þær eru þróuð útgáfa af Stalin orgelum frá seinni heimsstyrjöldinni. Þótt framrás þeirra í innrásinni hafi verið stöðvuð þá eru þeir enn að valda mann- og eignatjóni með flugskeytum og loftárásum á Kænugarð og aðrar borgir.

Frá því Úkraínskir hermenn komu fréttamanni og myndatökumanni AP frá Mariupol í síðustu viku sem myndað höfðu hryllinginn þar í hálfan mánuð, er fátt um fréttir þaðan. Myndir með sjónvarpsfréttinni eru þó sagðar vera af Téténeskum málaliðum sem hertekið hafi borgina ásamt Rússum. Barist er á götum borgarinnar.
Zelenskyy ávarpaði ítalska þingið í dag eftir fjarfund með Fransis páfa.
„Innrásin hefur nú staðið í 27 daga, næstum því einn mánuð. Þess vegna þurfum við meiri refsiaðgerðir, enn meiri þrýsting svo Rússar hætti að leita að frekari liðsafla eða málaliðum einhvers staðar í Sýrlandi eða Líbíu og fari að leita að friði,“ sagði Zelenskyy meðal annars í ávarpi sínu til ítalska þingsins. Þar var honum heitið stuðningi ítölsku þjóðarinnar.