Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að húsfreyjan á Snartarstöðum 2, Sigurlína Jóhannesdóttir, ætti hugmyndina en eiginmaður hennar og sonur hjálpuðu við smíðina.

Í þættinum Um land allt sagðist hún hafa byrjað að koma hræðunum upp fyrir um þrjátíu árum, en ekki bara til að hræða burt fugla. Hún vildi um leið vekja athygli ferðafólks á Kópaskeri og sérstaklega ná til barna þegar þau litu út um bílgluggann á sumarferðalagi um landið.
„Þau myndu muna eftir því í næsta landafræðitíma um haustið þegar þau mættu í skólann hvar Kópasker væri. Því þar voru allar hræðurnar við veginn,“ sagði Sigurlína.
Þær eru yfir þrjátíu talsins og hver með sína sögu. Þarna er drottning með kórónu að húkka far og önnur, hún Guðfinna, situr með pott í fanginu á gamalli sláttuvél.

„Margar þeirra eru að sjóða mat. Þetta er bara eins og við erum, konurnar. Við erum endalaust að sjóða. Sérðu eins og þarna: Þessi, hún er bara að sjóða heilt barn.“
Já, hér er komin sjálf Grýla og með barn í pottinum, og með Leppalúða við hliðina, sem heldur á blóðugri exi. Við spyrjum hvort þetta sé til að hræða börnin:
„Nei, bara til að sýna þeim hvað getur gerst ef þau fara ekki eftir reglum, kannski. Maður veit aldrei.“

Og þær hafa sannarlega átt þátt í að auglýsa Kópasker.
„Þær hafa komið í ferðabæklingum erlendis, hef ég frétt. Þannig að þetta vekur einhverja athygli,“ segir Sigurlína, bóndi og ökukennari á Snartarstöðum.
Þátturinn um Kópasker verður endursýndur á Stöð 2 á sunnudag klukkan 14.05. Einnig má nálgast þáttinn á streymisveitunni Stöð 2+.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: