Þorgeir Bjarki er öllum hnútum kunnugur á Seltjarnarnesi en hann lék með Gróttu upp alla yngri flokka og átti til að mynda stóran þátt í að koma liðinu upp í úrvalsdeild árið 2015.
Þorgeir, sem er 25 ára gamall örvhentur hornamaður, hefur undanfarin ár leikið með Fram, HK og nú síðast Val og orðið tvisvar bikarmeistari og einu sinni Íslandsmeistari með Valsmönnum.
„Það eru gríðarlega góðar fréttir að Þorgeir sé kominn í Gróttu. Hann er mikill karakter og mun styrkja liðið mikið,“ sagði Arnar Daði Arnarsson þjálfari Gróttu í fréttatilkynningu.
„Ég er mjög spenntur að snúa aftur í Gróttu eftir 6 ára fjarveru. Ég hef mikla trú á hópnum og þjálfarateyminu og markmiðum þeirra. Það hefur mikið tilfinningalegt gildi fyrir mig að koma heim til uppeldisfélagsins og gera mitt besta til að styrkja hópinn fyrir næstu leiktíð,“ sagði Þorgeir Bjarki í sömu tilkynningu.