Hún viðurkennir að missa sig í dansi og söng þegar hún heyrir tónlist Spice Girls en í skipulagi er hún mjög sígild og gerir verkefnalista í byrjun hvers vinnudags.
Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Ég vakna á milli klukkan sjö og átta.
Veturinn fer ekki vel í mig og þess vegna þarf ég alveg nokkrar vekjaraklukkur til að koma mér af stað! En á sumrin er ekkert mál að vakna snemma og byrja daginn í ró.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Ég byrja daginn á því að fá mér espresso bolla því ég get varla talað fyrr en hann er kominn niður. Næst er að gera börnin tilbúin í leikskólann.
Svo er það ræktin þrisvar í viku, get ekki farið án þessa að lyfta.“
Hefur þú dansað eða sungið í laumi við eitthvað lag sem kemur þér alltaf í gott skap?
Ég dansa eða syng alltaf ef ég heyri Spice Girls lag.
Það er ekki hægt annað en að vera glöð þegar þessar ofur konur syngja.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Ég var að opna nýjan veitingastað í Urriðaholti í Garðabæ.
Staðurinn heitir 212 Bar & Bistro og þar erum við að bjóða upp á góðan mat í bland við skemmtilega stemningu.
Við opnuðum staðinn fyrir rúmum tveimur mánuðum en að undirbúa þá opnun og fylgja opnuninni eftir hefur tekið mest af mínum tíma síðasta hálfa árið.
Svo er að hafa yfirsýn yfir hinum stöðunum sem við rekum, Dillon og Pablo Discobar.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Vinnan mín er mismunandi flesta daga. Ég er mikið í því að bregðast við því sem getur komið upp á í veitingarekstri svo að allt gangi sem best.
En ég byrja mína vinnudaga á því að fara yfir það sem þarf að klárast þann daginn og geri verkefnalista. Síðan reyni ég að klára allt sem er á þeim lista fyrir dagslok.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Ég fer að sofa klukkan ellefu flest kvöld. Ég á mjög erfitt með að ná ekki mínum átta tímum á næturnar á virkum dögum. Mér finnst líka voða gott að vera í góðri rútínu.“