Sjálfbærni og samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja hefur verið heitt umræðuefni um síðustu misseri.
Nýverið samþykkti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) tillögu að tilskipun um áreiðanleikakönnun á sjálfbærni fyrirtækja. Fyrirtækjum verður gert að greina og, ef nauðsyn krefur, koma í veg fyrir, binda enda á eða draga úr skaðlegum áhrifum starfsemi þeirra á mannréttindi og umhverfi. Innan Evrópusambandsins er vilji til að aðlaga regluverk félagaréttar að sjálfbærari framtíð og um leið stuðla að ábyrgari stjórnarháttum. Tillagan er nú í umræðu hjá Evrópuþinginu og ráðinu (sem samanstendur af leiðtögum aðildarríkja ESB). Verði tillagan samþykkt verður hún að tilskipun sem aðildarríkjum ber að innleiða í landsrétt.
Forsaga tillögunnar er sú að Evrópuþingið og ráðið skoruðu á framkvæmdastjórn ESB að leggja fram tillögu að lagaramma ESB um sjálfbæra stjórnarhætti í samræmi við það sem tíðkast í stórum iðnríkjum á borð við Frakkland og Þýskaland. Frakkland gerði til að mynda breytingar á löggjöf sinni í júlí 2021 sem snéru að baráttu gegn loftslagsbreytingum og eflingu viðnámsþols gagnvart áhrifum þeirra. Sum ákvæði tóku gildi um leið og lagabreytingar Frakklands tóku gildi en aðrar ráðstafanir munu taka gildi á næstu þremur árum og vera í gildi til ársins 2034.
Fyrirhuguð tilskipun framkvæmdastjórnarinnar svaraði þessari áskorun í kjölfar þess að hafið var opinbert samráð um frumkvæði um sjálfbæra stjórnarhættiþann 26. október 2020. Við undirbúning tilögunar að tilskipuninni tók framkvæmdastjórn Evrópusambandsins einnig til skoðunar þann víðtæka grunn sönnunargagna sem var safnað í gegnum tvær rannsóknir, annars vegar um skyldur stjórnarmanna og sjálfbæra stjórnarhætti frá júlí 2020 og hins vegar um kröfur um áreiðanleikakönnun í aðfangakeðjunni frá febrúar 2020.
Innan Evrópusambandsins er vilji til að aðlaga regluverk félagaréttar að sjálfbærari framtíð og um leið stuðla að ábyrgari stjórnarháttum.
Þrátt fyrir að hér sé um tillögu að tilskipun að ræða verður hér eftir vísað til hennar sem „tilskipunarinnar“. Markmiðið með þessari grein er að fjalla í stuttu máli um gildissvið tilskipunarinnar og á sama tíma að velta upp þeim þáttum sem fyrirtæki verða að huga að til að starfa í samræmi við tilskipunina.
Tilgangur tilskipunarinnar
Tilgangur tilskipunarinnar er tvíþættur. Tilskipunin mælir meðal annars fyrir um reglur um: (i) skyldur fyrirtækja varðandi raunveruleg og hugsanleg mannréttindaáhrif og skaðleg umhverfisáhrif, að því er varðar eigin rekstur, rekstur dótturfélaga þeirra og virðiskeðjustarfsemi (e. value chain operations) á vegum aðila sem hafa undir höndum fyrirtæki með staðfest viðskiptatengsl; og (ii) ábyrgð vegna brota á þessum skyldum.
Af þessu leiðir að tilskipunin á ekki aðeins við um eigin starfsemi fyrirtækja og starfsemi dótturfélaga þeirra, heldur einnig virðiskeðjur (beint og óbeint stofnuð viðskiptatengsl).
Hvaða fyrirtæki falla undir hinar nýju skuldbindingar?
Gildissvið tilskipunarinnar er nokkuð takmarkað en tilskipunin tekur til eftirfarandi fyrirtækja:
- Stórra fyrirtækja með meira en 500 starfsmenn og nettó ársveltu um allan heim sem er yfir 150 milljónir evra;
- ·Fyrirtækja með fleiri en 250 starfsmenn og nettó ársveltu um allan heim sem er yfir 40 milljónir evra, að því tilskildu a.m.k. 50% af nettó ársveltunni hafi orðið til í einni eða fleiri nánar tilgreindum atvinnugreinum (textíl- og skóiðnaði, landbúnaði, sjávarútvegi, framleiðslu matvæla, vinnslu jarðefnaauðlinda (olía, gas, kol), framleiðslu á málmvörum o.fl.) en fyrir þessi fyrirtæki myndu nýju reglurnar taka gildi tveimur árum eftir gildistöku þeirra; og
- Fyrirtækja sem eru skipulögð og starfa samkvæmt lögum þriðja ríkis þegar þau skila nettó ársveltu sem er umfram 150 milljónir evra í Evrópusambandinu, eða umfram 40 milljónir evra í Evrópusambandinu þegar að minnsta kosti 50% af þessari veltu myndast í einni eða fleiri af fyrrgreindum atvinnugreinum.
Að þessu sögðu, myndu um það bil 13.000 evrópsk fyrirtæki og 4.000 fyrirtæki frá þriðju ríkjum sem starfa innan Evrópusambandsins sæta umræddri áreiðanleikakönnunarskyldu á sjálfbærni fyrirtækja.
Aðildarríkin þyrftu að tryggja að fyrirtæki uppfylltu skyldur sínar um áreiðanleikakönnun og ættu rétt á að beita sektum ef um brot er að ræða.
Hafa ber í huga að lítil og meðalstór fyrirtæki falla ekki beint undir gildissvið tilskipunarinnar. Framkvæmdastjórnin tilgreindi engu að síður að slík fyrirtæki verði fyrir einhverjum kostnaði í gegnum viðskiptasambönd við fyrirtæki í umfangi þar sem búist er við að stór fyrirtæki velti kröfum til birgja sinna.
Hvaða skyldur ber að uppfylla?
Með hliðsjón af 4. gr. tilskipunarinnar þyrftu fyrirtæki að:
- Flétta áreiðanleikakönnun á sjálfbærni inn í stefnu sína og stjórnarhætti;
- Þekkja raunveruleg eða hugsanleg skaðleg áhrif á mannréttindi og umhverfi;
- Koma í veg fyrir og draga úr hugsanlegum skaðlegum áhrifum og binda enda á raunveruleg skaðleg áhrif eða lágmarka umfang þeirra;
- Koma á og viðhalda kvörtunarferli;
- Fylgjast með skilvirkni áreiðanleikakönnunarstefnu og aðgerða; og
- Deila með hinu opinbera áreiðanleikakönnuninni.
Hver þessara sex skuldbindinga er síðan nánar útfærð í 5.–11. gr. tilskipunarinnar.
Ábyrgð og viðurlög
Séu ofangreindar skyldur ekki uppfylltar geta fyrirtæki borið einkaréttarlega ábyrgð og verið gert að greiða þeim sem verða fyrir áhrifum bætur, sbr. 22. gr. tilskipunarinnar.
Aðildarríkin þyrftu að tryggja að fyrirtæki uppfylltu skyldur sínar um áreiðanleikakönnun og ættu rétt á að beita sektum ef um brot er að ræða.
Jafnframt tilgreinir tilskipunin að koma þyrfti á fót eftirlitsstjórnvaldi í hverju aðildarríki sem hefði vald til að krefja fyrirtæki um að stöðva háttsemi sem ekki uppfyllir kröfur eða jafnvel beita fjárhagslegum viðurlögum eða öðrum þvingunarúrræðum.
Næstu skref
Með hliðsjón af framangreindu þyrftu fyrirtæki með meira en 500 starfsmenn og nettó ársveltu yfir 150 milljónum evra á heimsvísu að útbúa verklagsáætlun til að tryggja að viðskiptamódel þeirra og stefna samrýmist takmörkun hnattrænnar hlýnunar við 1,5 °C í samræmi við Parísarsamkomulagið. Parísarsamkomulagið er samþykkt gerð innan Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem fæst við útblástur gróðurhúsalofttegunda frá og með árinu 2020.
Tilskipunin leiðir jafnframt til þess að starfsemi fyrirtækja verði í auknum mæli tengd við sjálfbærnisáætlanir.
Höfundur telur að tilskipunin sé mikilvægt félagaréttarlegt framfararskref sem komi til með að ýta undir skýrari skyldur stjórnenda fyrirtækja. Jafnframt tryggja að atvinnustarfsemi tengd innri markaði ESB fari fram á ábyrgan hátt. Tilskipunin leiðir jafnframt til þess að starfsemi fyrirtækja verði í auknum mæli tengd við sjálfbærnisáætlanir. Þrátt fyrir þetta telur höfundur að takmarkað gildissvið tilskipunarinnar sé ófullnægjandi og geti haft í för með sér áhættu og áskoranir fyrir fjárfesta, sérstaklega á almennum mörkuðum, þegar kemur að því að stjórna áhrifum þeirra á sjálfbærni.
Höfundur er lektor við Háskólann á Bifröst og lögfræðingur á bandarískri lögmannsstofu í London.