Í fréttum Stöðvar 2 var fjallað um þennan furðufisk en þegar við vorum á ferð á Ströndum fyrr í vetur sögðu bændur í sveitinni okkur frá honum.
„Það er talið að hann hafi lokast þarna inni um ísöld. Þetta eru vötn sem ekki eru með samgang við sjó. Og sé bara búinn að vera þarna síðan,“ segir Jóhann Ragnarsson, bóndi í Laxárdal.
Vötnin heita Fýlingjavötn og eru á Laxárdalsheiði ofan Borðeyrar í landi Valdasteinsstaða en það var árið 1997 sem þeir Pétur Brynjólfsson í Hólalaxi og Gunnar Sæmundsson í Hrútatungu vöktu athygli fiskifræðings hjá Veiðimálastofnun á fisknum, Tuma Tómassonar.

„Þarna hefur hann bara þróast og verið um aldir. Mjög lítill stofn, í litlum vötnum við mjög takmörkuð hrygningarskilyrði,“ segir Tumi, sem núna starfar hjá Hafrannsóknastofnun.
„Þetta er góður matfiskur og skemmtilegur. Stórir fiskar,“ segir Jóhann bóndi.
Fiskurinn er bleikur á að sjá en er samt ekki bleikja.

„Fyrst hélt ég að þetta væri sértegund. En ef þú greinir hann, bara eftir greiningarlykli, þá greinist hann sem urriði. Og erfðafræðilega greinist hann sem urriði,“ segir fiskifræðingurinn.
„Hann er bara allt öðruvísi á hreistrið heldur en urriði. Hann er eiginlega silfraður og ekkert líkur urriða, þannig lagað séð, nema í byggingunni“ segir bóndinn.
Fiskurinn telst samt urriði en með stökkbreytt litarafbrigði. Í fréttum var fyrst sagt frá þessum óvenjulega fiski í Morgunblaðinu árið 1998.
„Þetta þekkist hvergi annars staðar. En það þekkjast hins vegar önnur urriðaafbrigði á öðrum stöðum í heiminum. En ekkert líkt þessu,“ segir Tumi.
Og telst með fyrstu landnemum.
„Þetta er örugglega með fyrstu urriðum sem koma til landsins eftir ísöld.“

-Af hverju gerist svona í náttúrunni?
„Það verður þarna einhver stökkbreyting. Þetta eru gen sem ráða litarhafti og þetta er víkjandi gen,“ svarar Tumi.
Og bændurnir passa upp á þennan einstaka fisk.
„Við leyfum ekki mikla veiði í vötnunum. Það er aðeins veitt í þeim, stangveitt í þeim á hverju ári, en það er gert með mjög hóflegum hætti,“ segir Jóhann í Laxárdal.
„Það er alltaf gaman að einhverju sem er svona sérstakt í náttúrunni,“ segir Tumi Tómasson.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: