Í greininni gagnrýnir Kristrún einnig kostnaðinn við söluferlið en ríkið greiðir söluráðgjöfum um 700 milljónir króna, eða 1,4 prósent af söluandvirði bréfanna.
Listinn yfir kaupendur var birtur á vef stjórnarráðsins í gær. Mikil eftirspurn var eftir hlutum í bankanum í útboðinu en alls buðu 430 fjárfestar í 50 milljón hluti þar sem verð á hverjum hlut var 117 krónur eða fjórum prósentum lægra en markaðsgengi. Þeir voru seldir fyrir samtals 52,7 milljarða króna.
Kristrún spyr einnig hvert markmiðið með sölu á þessum hlut ríkisins hafi í raun verið. Langflestir hafi lagt þann skilning í málið að ástæðan fyrir því að ákveðið hafi verið að fara tilboðsleið og veita afslátt frá markaðsverði á ríkiseign hafi verið sú að með því fengjust langtímafjárfestar inn sem væru að kaupa það stóran hlut sem ekki væri auðsótt að kaupa beint á markaði.
Nú hafi hins vegar komið í ljós að fjölmargir litlir fjárfestar hafi fengið að kaupa, þrátt fyrir að um væri að ræða lágar upphæðir og því um að ræða bréf sem vel er hægt að kaupa á markaði.
Hún segir því ljóst að markmiðin með þessum öðrum áfanga sölunnar séu sífellt að verða óljósari og að þörf sé á alvöru skoðun á ferlinu öllu.