Innlent

130 milljarðar króna til hjúkrunar­heimila í nýjum tíma­móta­samningi

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Samningarnir voru kynntir í dag. 
Samningarnir voru kynntir í dag.  Vísir/Einar

Nýir samningar um aukið fjármagn til hjúkrunarheimila og úrbætur til framtíðar voru kynntir í dag. Nýju samningarnir eru til þriggja ára og nemur heildarfjármagn til þeirra tæpum 130 milljörðum króna. Heilbrigðisráðherra segir að um tímamótasamning sé að ræða og boðar miklar umbætur í sértækri þjónustu.

Rekstrargrunnur heimilanna hefur verið styrktur um einn milljarð króna á ársgrundvelli, framlög vegna betri vinnutíma verða aukin um 1,2 milljarða króna, og rúmlega 570 milljónum króna verður varið í að mæta aukinni hjúkrunarþyngd, styrkja litlar rekstrareiningar með svokölluðu smæðarálagi og eflingu kostnaðarútlagasjóðs.

María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, segir að um sé að ræða mikilvægt skref en alls starfa 45 hjúkrunarheimili víðs vegar um landið á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu.

„Með þessum samningum þá erum við að tryggja þessa mikilvægu þjónustu fyrir allt að 2600 íbúa á hverjum tíma,“ segir María en hún segir samningsaðila hafa verið sammála um að það þyrfti að koma ýmsum málum í betri farveg.

Til stendur að endurskoða núverandi mats- og greiðslukerfi og skoða fyrirkomulag húsnæðismála. Þá stendur til að auka þjónustu við yngri einstaklinga og koma á fót úrræði fyrir geð- og fíknisjúklinga sem þurfa að dvelja á hjúkrunarheimili.

María Heimisdóttir forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.

„Þannig það er svona verið að huga sérstaklega að þessum hópum sem að þurfa á sértækri þjónustu að halda. Það er meira verið að horfa á svona klæðskerasniðna þjónustu,“ segir María enn fremur.

Mikilvægt að fylgja þróun samfélagsins

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir að um tímamótasamning sé að ræða en hann hefur sömuleiðis skrifað undir viljayfirlýsingu um frekari þróun þjónustu við sértæka hópa.

„Tímamótin felast fyrst og fremst í því hvernig við nálgumst samninginn, lausnamiðað og með umbætur í huga. Þetta er verkefni sem að við þurfum alltaf að vera í stöðugu samtali um, að gera hlutina betur,“ segir Willum.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. Vísir/Einar

Á samningstímanum verður unnið að verkefnum sem miða að bættu rekstrarumhverfi heimilanna til framtíðar og auknum gæðum þjónustu. Heilbrigðisráðherra segir mikilvægt að samningarnir séu í takt við þróun samfélagsins, meðal annars með tilliti til aldurssamsetningu. 

„Það er svo fjölmargt sem að við erum að ræða alla daga en hefur kannski ekki verið teiknað inn í svona samning,“ segir Willum en hann segir að um ákveðna vegferð sé að ræða. „Svona samningur veitir okkur stöðugleika til þess að leggjast yfir þessa þætti sem að við þurfum stöðugt að vera að huga að.“

Þannig þú ert bara bjartsýnn á að rekstur hjúkrunarheimilanna muni blómstra næstu ár?

„Við verðum að vera það.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×