„Mér fannst við gera þetta mjög fagmannlega, að klára þetta svona sannfærandi. Við erum ánægðar með að hafa unnið og stefnum á sigur í næsta leik líka,“ sagði Agla María í samtali við blaðamann á hóteli íslenska liðsins í Prag í dag.
Næsti leikur Íslands er gegn Tékklandi í Teplice á þriðjudaginn. Með sigri í þeim leik er ljóst að íslenska liðið verður á toppi riðilsins fyrir síðustu tvo leikina í undankeppninni.
„Það verður klárlega miklu erfiðari leikur og allt öðruvísi. Þær eru með hörkugott varnarlið myndi ég segja en á sama tíma þurfa þær að sækja sem hentar okkur vel. Þetta verður hörkuleikur. Þetta eru jöfn lið,“ sagði Agla María.
Þetta verður þriðji leikur Íslands og Tékklands á hálfu ári. Íslendingar unnu Tékka, 4-0, á Laugardalsvellinum í fyrri leiknum í undankeppni HM í október á síðasta ári og unnu svo 1-2 sigur á SheBelieves mótinu í Bandaríkjunum í febrúar. Þótt Ísland hafi unnið stórsigur á Tékklandi síðasta haust gáfu úrslitin ekki alveg rétta mynd af leiknum.
„Þetta er mjög sterkt lið og þrátt fyrir að við höfum unnið þennan leik voru þær mjög öflugar í honum. En ef maður horfir nokkur ár aftur í tímann gerðum við tvisvar jafntefli við þær og það voru tveir hörkuleikir. Þær eru með mjög svipað lið og þá,“ sagði Agla María.
„Þetta er leikur sem getur sett okkur í lykilstöðu fyrir haustið og við stefnum klárlega á að koma okkur í hana.“
Allt viðtalið við Öglu Maríu má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. Þar ræðir hún einnig um fyrstu mánuðina í atvinnumennsku en hún gekk í raðir Häcken í Svíþjóð í vetur.