Skoðun

Dagur jarðar

Elín Björk Jónasdóttir skrifar

Dagur jarðar er í dag, 22. apríl og er þema dagsins í ár „Fjárfestum í jörðinni okkar“.

Við mannkynið leggjum mjög mikið á jörðina. Við erum frek á auðlindir og göngum almennt illa um, það sést best á því hversu líffræðilegum fjölbreytileika hnignar, hversu mikið við mengum og hversu mikið lofthjúpurinn hefur hlýnað undanfarna öld. Allt þetta má rekja til athafna mannsins.

Við getum þó auðveldlega tekið okkur á og ýmsu má enn bjarga. Með því að taka ákvörðun um að lifa vistvænni lífsstíl, nýta betur, nota minna og huga að því hvernig við nýtum landið má ná miklum árangri í náttúru og loftslagsvernd á tiltölulega skömmum tíma. Við Vinstri græn í Reykjavík viljum efla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu og gefa íbúum Reykjavíkur raunverulegt val um vistvænar samgöngur. Þannig drögum við úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda sem ógna loftslaginu, drögum úr umferð og hávaðamengun og svifryksmengun sem er vaxandi vandamál í Reykjavík. Við viljum framfylgja hjólreiðaáætlun Reykjavíkur, og byggja hraðbrautir fyrir samgönguhjólreiðar sem miða að því að samgönguhjólreiðar verði val fyrir alla borgarbúa.

Við viljum fjölga grænum svæðum í borgarlandinu og vernda líffræðilegan fjölbreytileika í náttúru borgarinnar, það getum við til dæmis gert með friðlýsingum svæða s.s. Grafarvogs, Skerjafjarðar og eyjanna í Kollafirði. Gerum útivistarsvæðum borgarinnar hátt undir höfði, sinnum stígagerð og fræðslu og gerum svæðin aðgengileg öllum.

Flokkun og endurvinnsla skilar miklum verðmætum á ári hverju, með fjölgun efnisflokka á grenndarstöðvum og aukinni flokkun almennt endurnýtum við takmarkaðar auðlindir jarðar í stað þess að sóa þeim eins og við höfum gert allt of lengi. Líflegt hringrásarhagkerfi verður til þess að við notum minna af auðlindum og nýtum þær betur en áður.

Að fjárfesta í jörðinni þýðir fjárfestingar í þeim innviðum sem minnka mengunarálag á jörðinni allri, en þýðir jafnframt að við verðum öll að leggja aðeins á okkur. Engin getur gert allt, en ef við gerum öll eitthvað tekst okkur að klára öll verkefni, líka þau sem við fyrstu sýn virðast óyfirstíganleg.

Höfundur er veðurfræðingur og í 3. sæti á lista Vinstri grænna fyrir borgarstjórnarkosningar í Reykjavík þann 14. maí.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×