Fótbolti

Þarf fullkominn leik gegn Liverpool

Sindri Sverrisson skrifar
Unai Emery er með „fimm háskólagráður“ í að ná árangri í Evrópukeppnum í fótbolta.
Unai Emery er með „fimm háskólagráður“ í að ná árangri í Evrópukeppnum í fótbolta. Getty/Sebastian Widmann

Unai Emery segist aldrei hafa séð betra Liverpool-lið en það sem að Villarreal, sem Emery stýrir, mætir á morgun í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta.

Emery segir að þrátt fyrir að lið Liverpool sem vann Meistaradeildina fyrir þremur árum hafi verið frábært þá sé liðið í dag enn fjölhæfara og betra. Villarreal þurfi „fullkominn“ leik.

„Við höfum ekki lengur sama tækifæri til að koma á óvart,“ segir Emery sem stýrt hefur Villarreal til sigurs gegn Juventus og Bayern München á leiðinni í undanúrslitin. Ólíklegt er að Liverpool falli í sömu gildru.

„Í fyrsta einvíginu gegn Juventus áttum við auðvelt með að koma á óvart og lentum líka 1-0 undir, sem skipti máli upp á að Juventus brygðist ekki við. Gegn Bayern var það líka mikilvægt að við gætum varist aftarlega [í seinni leiknum],“ sagði Emery.

Sigurstranglegri en sýna virðingu

„Þetta er ekki í boði lengur. Þegar maður er kominn í undanúrslit þá á maður það skilið. Og miðað við það sem maður heyrir frá Liverpool, þeir hafa sagt mjög gáfulega hluti, og virðinguna sem þeir hafa sýnt – þeir þekkja okkur, vita að þetta verður erfitt og hvað við getum. Þeir eru sigurstranglegri en sýna samt virðingu,“ sagði Emery sem fagnaði sigri gegn Liverpool sem stjóri Sevilla í úrslitaleik Evrópudeildarinnar 2016, í lok fyrstu leiktíðar Liverpool undir stjórn Jürgens Klopp.

„Við verðum að greina, undirbúa okkur, mæta sem besta útgáfan af okkur og láta ölduna bera okkur áfram. Við verðum að eiga fullkominn leik. Við vitum að þetta er undanúrslitaleikur og að við erum að mæta sigurstranglegasta liðinu en við höfum trú á okkur og ætlum að marka okkur pláss á vellinum,“ sagði Emery.

Leikur Liverpool og Villarreal á morgun hefst klukkan 19 og er sýndur á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×