Mikið var rætt um það þegar samfélagsmiðlastjarnan byrjaði að birta myndbönd af sér með gæludýrið sitt, refinn Gústa Jr.
„Það er ekki gaman þegar einn fjórði landsins er að drulla yfir þig,“ viðurkennir Gústi um neikvæðu umræðuna sem fór af stað um val hans á gæludýri. „Fólk var að segja ljóta hluti,.að þetta væri algjört dýranið.“
Gústi fullyrðir þó að refurinn lifi lúxuslífi. MAST blandaðist samt í málið á einum tímapunkti.
„Refir á Íslandi eru skotnir í massavís úti í náttúrunni í massavís. Það má skjóta refi. Þannig að þetta var orðin svolítið skrítin staða sem ég var í. Ég mátti fara með þennan ref út á land og skjóta hann í hausinn en ég mátti ekki vera með hann og passa hann og sjá um hann. Þeir vildu meina að það væri dýraníð. Að fæða hann og klæða hann og gefa honum hrein rúmföt.“
Gústi B er gestur vikunnar í Einkalífinu hér á Vísi. Þar talar hann um orðróminn um að refurinn Gústi hefði drepist, TikTok ævintýrið, hvernig hann byrjaði óvænt að tala inn á teiknimyndir, stóra systkinahópinn, fyrirmyndirnar, draumana og margt fleira.