Fanginn, hinn 38 ára Casey White, sem grunaður er um morð á 58 ára konu árið 2020, sást síðast með fangaverðinum Vicky White á lögreglustöð í Alabama síðastliðinn föstudag. White sagðist þá vera á leið með fangann í geðrannsókn, en síðar kom í ljós að engin slík rannsókn hafði verið áætluð.
Nú er talið víst að þau Casey White og Vicky White hafi skipulagt flóttann í sameiningu. Handtökutilskipun hefur því einnig verið gefin út á hendur Vicky White, en skötuhjúin eru ekkert skyld þótt þau beri sama ættarnafn.
Nú er einnig komið í ljós að Vicky White hafði sagt upp störfum sem fangavörður og einnig hafði hún selt hús sitt á svæðinu og sagt vinum sínum að hún væri á leið á ströndina.
Dagurinn sem skötuhjúin hurfu var lokadagur hennar í vinnunni, að því er segir í frétt BBC.