Eins og fram kom í morgun ákvað Seðlabankinn að hækka stýrivexti um eitt prósent í þeirri von að það slái á verðbólgu. Bankinn hefur snarhækkað verðbólguspá sína.
Kristrún segir að þau í Samfylkingu hafi barist fyrir aðgerðum vegna verðbólguþrýstings allt frá í febrúar, þegar ljóst var í hvað stefndi. Hún birtir skjáskot af fjölda athugasemda þar um sem hún hefur birt á Facebook-vegg sínum á undanförnum mánuðum.
„Í marga mánuði hefur ríkisstjórnin hummað þetta fram af sér. Þau treysta sér ekki til að beita virkri velferðarstjórn til að koma í veg fyrir að vandinn vindi upp á sig. Aukinn stuðningur við uppbyggingu húsnæðis, vaxtabætur og barnabætur myndu draga úr launaþrýstingi í komandi kjaraviðræðum enda eru slík úrræði til þess fallin að styðja við ráðstöfunartekjur fólks,“ segir Kristrún.
Þingmaðurinn segir að í staðinn fyrir að grípa til slíkra aðgerða hafi ríkisstjórnin boðað 2 milljarða króna niðurskurð í uppbyggingu húsnæðis í fjármálaáætlun til 2026. Það sé á sama tíma og vaxtabætur fjari út og verðgildi barnabóta fjarlægist óðfluga það sem þekkist á Norðurlöndum.
„7,2 prósent verðbólga og tug prósenta hækkun húsnæðisverðs er ekki óhjákvæmileg staða og ekki náttúrulögmál - þetta er mannanna verk,“ segir Kristrún.