Fótbolti

Martröð nokkurra stuðningsmanna Real Madrid á draumakvöldinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þessi stuðningsmaður Real Madrid hefur klifrað upp í tré fyrir utan leikvanginn.
Þessi stuðningsmaður Real Madrid hefur klifrað upp í tré fyrir utan leikvanginn. Getty/Chris Brunskill

Flestir stuðningsmenn Real Madrid hefðu gefið mikið til að vera í stúkunni á Santiago Bernabeu á miðvikudagskvöldið þegar liðið sneri við vonlítillri stöðu í blálokin og tókst að slá út Englandsmeistara Manchester City.

Svo voru það aðrir sem áttu að vera þar en voru þar ekki þegar örlög liðsins breyttust með tveimur mörkum Rodrygo með mínútu millibili.

Real var gefið eitt prósent sigurlíkur á 89. mínútu leiksins en þeim tókst að kalla fram enn eitt kraftaverkið í Meistaradeildinni á þessari leiktíð.

Það voru þó ekki aðeins tölfræðingarnir sem voru nánast búnir að afskrifa lið Real Madrid á þessum lokamínútum.

Fjölmargir stuðningsmenn Real Madrid liðsins höfðu nefnilega gefist upp og yfirgefið Bernabeu á lokamínútum leiksins. Þetta stuðningsfólk heyrði örugglega flest fagnaðarlætin þegar Real komst aftur inn í leikinn en þau máttu ekki koma aftur inn á leikvanginn.

Fólkið sást snúa við á göngu sinni í átt að lestarstöðinni við leikvanginn og þjóta aftur í átt að vellinum.

Stuðningsmennirnir urðu að sætta sig við það að geta bara fylgst með leiknum í símanum sínum fyrir utan. Gleðin var auðvitað mikil að Real skyldi komast í úrslitaleikinn en um leið var það martröð fyrir þessa stuðningsmenn að komast ekki aftur inn á völlinn vitandi það að þau voru þar nokkrum mínútum fyrr.

„Ég fór úr sæti mínum tveimur mínútum fyrir nítugustu mínútu af því að ég hélt að möguleikinn væri farinn,“ sagði einn stuðningsmaður Real Madrid. Spænskur blaðamaður hitti hann á tröppunum fyrir utan leikvanginn.

„Þegar ég var að yfirgefa leikvanginn þá heyrði ég að Real skoraði. Ég reyndi að komast aftur inn á völlinn en ég mátti það ekki af öryggisástæðum. Ég hef verið ársmiðahafi í 24 ár,“ sagði stuðningsmaðurinn sem var mjög ósáttur að fá ekki að snúa aftur inn á leikvanginn.

„Mér var sagt að á öllum dyrum standi það skýrt og greinilega að ef þú ferð út þá kemstu ekki aftur inn. Ég sá það samt ekki á dyrunum. Á sama tíma er ég að missa af besta leiknum á tímabilinu. Ég mun kvarta yfir þessu við félagið,“ sagði þessi svekkti stuðningsmaður Real Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×