Fimmtu mótmælin vegna bankasölunnar eru fyrirhuguð á Austurvelli og á Ráðhústorgi á morgun. Kristinn Hrafnsson, Drífa Snædal og Bragi Páll Sigurðsson munu einnig flytja ræður á mótmælunum.
Björn Leví er einnig á mælendaskrá mótmælafundarins.
„Þetta er klassísk aðferð. Þau ætla að reyna að þegja af sér hneykslismálið. Þau eru að bíða eftir því að það komi eitthvað annað í staðinn; að daglegt líf taki við á ný en alltaf þegar ég tala við fólk um þetta þá er því alltaf jafn mikið heitt í hamsi yfir þessu,“ segir Björn sem kveðst ekki sannfærður um að landsmenn gleymi málinu neitt bráðlega.
Hann telur að það muni hafa miklar afleiðingar í för með sér af fjármálaráðherra stígur ekki til hliðar vegna málsins. Það muni leiða til djúpstæðs vantrausts til þingsins en einnig til slæmra áhrifa á lýðræðið.
„Það verður dýpri óánægja. Fólk verður fyrr tilbúið til þess að draga slæmar ályktanir um mál sem kannski eru ekkert svo slæm en af það er einhver grunsamlegur flötur á þeim þá mun fólk draga verstu ályktanirnar. Þannig birtist vantraust okkur. Lítil mál blásast upp og verða að stórum málum af því að það minnir okkur á að það er ekki búið að gera upp stóru málin.“

Björn hvetur almenning til að láta sig málið varða.
„Það er hægt að mæta á mótmæli og það er hægt að tala um þetta mál. Það er líka hægt að kjósa einfaldlega ekki flokka sem styðja Sjálfstæðisflokkinn til valda í sveitarstjórnarkosningum. Það er eina tungumálið sem þau skilja, það eru völd og atkvæði gefa þeim völd og ef þau missa atkvæði þá missa þau völd og þá vilja þau gera eitthvað í því.“
Björn Leví kveðst ekki treysta fjármálaráðherra sjálfum til að ákveða þann farveg sem rannsókn á Íslandsbankamálinu eigi að fara. Þá segist hann heldur ekki treysta honum til að birta niðurstöður rannsókna á réttum tíma með vísan til skýrslu um aflandseignir Íslendinga. Hún var ekki birt fyrr en eftir kosningarnar 2016.
„Þetta er sami fjármálaráðherra sem er einmitt að kalla á eftir þessu. Sporin hræða svo mikið. Þess vegna er eðlilegt að biðja um rannsóknarnefnd því reynsla okkar af vinnu rannsóknarnefnda hefur verið mjög góð og hefur skilað mjög góðri vinnu.“
Björn Leví vísar þarna til óháðrar rannsóknarnefndar á vegum Alþingis sem stjórnarandstaðan hefur kallað eftir að verði sett á fót en ríkisstjórnin hefur ekki viljað verða við því. Björn telur að ástæðan fyrir því sé sú að ríkisstjórnin vilji hlífa fjármálaráðherra.
„Þau ætla að reyna að komast hjá því í lengstu lög að láta reyna á lagalega ábyrgð hans í þessu og þau munu nýta allt sem þau geta til að tefja það.“