Skoðun

Blóm­legt at­vinnu­líf í Garða­bæ

Tinna Rún Davíðsdóttir Hemstock skrifar

Garðabær er vaknaður til lífsins og er ekki lengur svefnbær. Verslun og þjónusta hefur vaxið hratt undanfarin ár þar sem eftirspurn eftir þjónustu í nærumhverfi hefur aukist til muna. Í Garðabæ er komið gott úrval veitingastaða, verslanir af ýmsum toga og áhugaverð þjónustufyrirtæki sem séð hafa tækifæri á að staðsetja sig í bæjarfélaginu.

Sóknarfæri

Atvinnulífið í Garðabæ er búið að slíta barnskónum og það er kominn tími til að hugsa stærra og grípa tækifærið, það eru sóknarfæri. Því tel ég skynsamlegt að sveitafélagið komi að stofnun Markaðstofu Garðabæjar sem hefur það að megin markmiði að efla og styðja við atvinnu og menningarlíf í bænum. Það er hlutverk stjórnvalda að skapa umgjörð og jarðveg svo að verslun og þjónusta blómstri í bæjarfélaginu.

Markaðsstofa Garðabæjar myndi nýtast sem samstarfsvettvangur stjórnsýslunar og atvinnulífsins í bæjarfélaginu til að vinna að sameiginlegum hagsmunum. Hún kæmi að viðburðahaldi, viðburðadagatali, laða fyrirtæki til bæjarins, ímyndarmálum sem og að markaðssetningu á verslunarkjörnum bæjarins ásamt því að stuðla að nýsköpun og skapandi umhverfi fyrir listir og menningu. Markmiðið væri að skapa ímynd sem endurspeglar rétta mynd af bæjarfélaginu og draga fram það besta sem bærinn hefur upp á bjóða í menningu, listum, verslun og þjónustu.

Nágrannasveitafélög okkar, Kópavogur og Hafnarfjörður, hafa bæði tekið skrefið og nú er komið að Garðabæ.

101 Garðabær

Sjálf er ég fædd og uppalinn í Garðabæ, ég er atvinnurekandi á Garðatorgi og er ánægð með þróunina á torginu undanfarin ár. Hinsvegar getum við gert betur og tryggt Garðatorg enn frekar í sessi sem miðbæ Garðabæjar. Á Garðatorgi eru fjölbreyttar verslanir með sterka sérstöðu og með samrýmdu átaki og samstarfi getum við gert það enn betra. Til að mynda eru bílastæði torgsins yfirleitt þétt setin yfir daginn af öðrum en viðskiptavinum Garðatorgs. En það er annað mál.

Öflug verslun og þjónusta ásamt skapandi listum í nærumhverfinu eykur lífsgæði bæjarbúa og styrkir samfélagið.

Framsókn í Garðabæ leggur áherslu á stofnun Markaðstofu Garðabæjar til að styðja við verslun, þjónustu, listir og menningu í Garðabæ. Er ekki bara best…

Höfundur er frambjóðandi Framsóknar og verslunareigandi á Garðatorgi.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×