Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arnarlaxi. Þar segir að stefnt sé að því að nýja fiskvinnslan verði allt 10 þúsund fermetrar og verði byggð á lóð í eigu Vesturbyggðar. Viljayfirlýsingin sé þá bundin því að samningar náist og allar forsendur standist. Í viljayfirlýsingunni er jafnframt mælt fyrir um flutning á móttökusvæði fyrir úrgang og kveðið á um uppbyggingu stórskipakants við Patrekshöfn.
Arnarlax hyggst reisa húsið á Vatnseyri á Patreksfirði en ekki liggur enn fyrir hvenær framkvæmdir geti hafist. Næstu skref séu að ljúka við gerð samninga, teikna upp nýtt deiliskipulag svæðisins og undirbúa framkvæmdir með niðurrifi, flutningi á núverandi starfsemi og uppbyggingu frekari innviða á svæðinu.

Þá þurfi jafnframt að skoða hvernig núverandi innviðir félagsins á Bíldudal nýtist nærsamfélaginu og fyrirtækinu sem best til áframhaldandi uppbyggingar.
Í viljayfirlýsingunni kemur fram að eldra húsnæði Straumness, sem stendur á lóðinni, verði rifið og móttökusvæði fyrir úrgang verði flutt. Gert er ráð fyrir uppbyggingu stórskipakants við Patrekshöfn, uppsetningu biðkvía við höfnina, auk þess sem gerður verði langtímasamningur um greiðslur til sveitarfélagsins í formi aflagjalda.
Í viljayfirlýsingunni er einnig mælt fyrir um að gert verði samkomulag um uppgjör og greiðslu á útistandandi kröfum vegna aflagjalda, sem hafa verið til meðferðar fyrir Héraðsdómi Vestfjarða að undanförnu.