Fótbolti

Fylgdi í fótspor föður síns og varð annar til að skora í báðum leggjum umspilsins

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Feðgarnir Brennan og David Johnson.
Feðgarnir Brennan og David Johnson. Vísir/Getty

Brennan Johnson skoraði eina mark Nottingham Forest í venjulegum leiktíma er liðið tryggði sér sæti í úrslitum umspilsins um sæti í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili.

Leikur Nottingham Forest og Sheffield United í kvöld endaði með 2-1 sigri Sheffield United í venjulegum leiktíma og samanlögð úrslit urðu því 3-3. Því þurfti að grípa til framlengingar og loks vítaspyrnukeppni til að skera úr um sigurvegara þar sem Nottingham Forest hafði betur, 4-2.

Brennan Johnson skoraði einmitt annað mark Nottingham Forest í fyrri leik liðanna og komst þar með í fámennan hóp manna sem hafa skorað í báðum leikjum undanúrslita umspilsins um sæti í ensku úrvalsdeildinni fyrir Nottingham Forest.

Raunar eru þeir nú aðeins tveir sem skipa þennan hóp. Sá eini sem hafði gert þetta áður var David Johnson, faðir Brennan Johnson, árið 2003.

Það sem gerir þessa skemmtilegu tilviljun enn skemmtilegri er að Johnson eldri gerði það einmitt gegn Sheffiled United, sama liði og sonur hans gerði nú í kvöld. Þrátt fyrir tvö mörk frá David Johnson í þeim leikjum komust liðsmenn Nottingham Forest þó ekki í úrslitaviðureignina eftir samanlagt 5-4 tap.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×