Mavericks byrjaði leikinn í nótt mun betur. Byrjunarlið Mavs setti 14 af 18 þriggja stiga tilraunum sínum í fyrri hálfleik og forysta Mavericks var mest 19 stig en í hálfleik leiddu gestirnir með 14 stigum, 72-58.
Þriðji leikhluti varð Mavericks að falli. Gestirnir hættu að hitta úr þriggja stiga tilraunum sínum en aðeins tvö af 13 þriggja stiga skotum Mavs fóru ofan í körfuna og sóknarleikur liðsins varð ráðvilltur. Á sama tíma var Warriors, sem er þekkt fyrir að skjóta villt og galið fyrir utan þriggja stiga línuna að keyra meira inn á körfuna en oft áður. Heimamenn snéru leiknum við og náðu í fyrsta skipti yfirhöndinni í upphafi fjórða leikhluta.
Kevon Looney, miðherji Warriors, fær flestar fyrirsagnir vestanhafs fyrir frábæran leik. Looney var með tvöfalda tvennu, gerði 21 stig og tók 12 fráköst en álíka leikur frá miðherja Warriors í úrslitakeppni hefur ekki sést lengi, besti leikur Looney á NBA ferli sínum. Stephen Curry var aftur sem áður stigahæsti leikmaður Warriors með 32 stig. Curry gaf einnig fimm stoðsendingar og tók átta fráköst.
Luka Doncic var lang stigahæstur á vellinum með 42 stig. Þrátt fyrir þetta mikla stigaskor Slóvenans þá voru Mavericks -12 stigum undir þær 38 mínútur sem Doncic spilaði. Eitthvað sem hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir Jason Kidd og hans menn í Dallas Mavericks.
Næsti leikur liðanna er í Dallas, aðfaranótt 22. maí. Mavericks ættu ekki að óttast þrátt fyrir að vera 2-0 undir en liðið var í sömu stöðu gegn Phoenix Suns í síðasta einvígi en náðu samt að koma til baka og vinna þá seríu.