Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar um verkefni dagsins frá klukkan fimm til ellefu í morgun. Þar segir að tilkynning um manninn hafi borist frá íbúum í hverfinu sem kvörtuðu undan hávaða. Ekki fylgir sögunni um hvaða hverfi var að ræða. Maðurinn er sagður hafa lækkað í tónlistinni eftir samtal við lögreglu og haldið sína leið.
Þá brást lögregla við tilkynningu um meðvitundarlausan mann í miðbænum, en þegar hana bar að garði ásamt sjúkraliði var maðurinn farinn, að sögn þess sem hringdi málið inn.
Eins barst lögreglu tilkynning um líkamsárás fyrir utan verslun, en náði ekki að hafa uppi á árásarmanninum. Málið er til rannsóknar.
Einn ökumaður var stöðvaður í morgun grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann var sviptur ökuréttindum auk þess sem fíkniefni fundust í fórum hans.