Í frétt Stöðvar 2 í gærkvöldi sagði Guðmundur Óli Scheving meindýraeyðir lúsmýið líklega komið einhvers staðar á landinu, þó hann hafi sjálfur ekki fengið það staðfest.

Kolbrún Björnsdóttir grasalæknir gat þó staðfest þennan grun Guðmundar og sagði hún lúsmýið sannarlega komið á sumarbústaðasvæði við Heklu, þar sem hún sjálf á bústað.
Þurfum að læra að lifa með flugunni
Bæði voru þau Guðmundur og Kolbrún sammála því að fólk byrji yfirleitt ekki nógu snemma að huga að lúsmývörnum en ýmislegt sé hægt að gera til þess að minnka líkurnar á bitum.
Að sögn Guðmundar hefur lúsmýið verið til staðar hér á landi í áraraðir en haldið sig að mestu úti í haga, þar til fyrir um sex árum síðan. Eitthvað hafi þá orðið til þess að flugan hafi breytt hegðun sinni og byrjað að angra mannfólkið.
Hann segir fluguna komna til að vera og að fólk þurfi einfaldlega bara að læra að lifa með henni.
Fréttina í heild sinni er hægt að sjá hér.
Lúsmýhópar á Facebook
Lúsmýbitin hafa lagst þungt á margan manninn síðustu sumur og hafa ofnæmislæknar látið hafa eftir sér að með tímanum geti fólk jafnvel myndað ónæmi fyrir bitunum, Guðmundur var þó ekki eins sannfærður.
Sérstakir Lúsmý-hópar hafa orðið til á Facebook en þar skiptist fólk á upplýsingum um veru lúsmýs eftir landsvæðum, ýmsum húsráðum, myndum af bitum ásamt flest öllu sem tengist því að fyrirbyggja eða meðhöndla lúsmýbit.
Það er mjög misjafnt hvað fólk segir virka en virðast flestir þó vera sammála um að einhverskonar lykt, í sprey eða kremformi, sé líklegust til að halda flugunni frá.

Kolbrún hefur sett saman sérblandaða ilmblöndu undir merkjum Jurtaapóteksins sem hún segir hafa virkað vel. Lavender og sítrónugras eru uppistaðan í blöndunni og þó svo að fólk geti einnig geta blandað sínar eigin blöndur sé vert að lesa sig vel til um hvernig sé best að blanda ilmolíum saman.
Sjálf segist hún spreyja blöndunni í öll horn, gluggakarma og einnig á líkamann.
Hátíðnitæki, glugganet, viftur og B-vítamín
Guðmundur hefur sjálfur tröllatrú á afríska sólblóminu en sjálfur flytur hann inn lúsmývarnir undir merkinu Stúdíó Norn.
Ásamt ýmsum ilmblöndum voru hátíðnitækin og glugganetin einnig vinsæl síðasta sumar og segir Guðmundur þau einföld í notkun og reynist vel til að halda flugunni frá.
Glugganetin geri sitt gagn en vel þurfi að huga að því hvernig net séu keypt. Þau þurfi að vera vel þétt og rétt fest á gluggann.
Viftur af öllum stærðum og gerðum seldust nær upp á landinu síðasta sumar en þær eru taldar minnka líkurnar á því að sú litla komist inn um gluggann og er viftan því látin snúa út að glugganum.

Flugan fer í manngreiningarálit
Lúsmýið hefur nú fundist víðast hvar á landinu en segir Guðmundur ekki vita til þess að hún hafi fundist á Vestfjörðum.
Þó svo að sumir fari eftir öllum ráðunum í bókinni virðist flugan þó fara í manngreiningarálit en ekki er nákvæmlega vitað hvaða þættir spili þar inn í. Blóðflokkur, húðgerð eða, eins og Kolbrún vill meina, mataræðið. B- vítamín hefur verið vinsælt en einnig segir Kolbrún að óhollt mataræði og sykurneysla geti gert kerfið viðkvæmara fyrir bitunum.
Það er því að mörgu að huga og í mörg horn að líta, jú og spreyja, næstu dagana því að lúsmýið er vissulega mætt í partýið.