Fólk í fyrstu sætum þeirra flokka sem reyna nú að mynda meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur hafa setið í sjö daga í kyrrðinni í Elliðaárdal og reynt að finna út hvort grundvöllur er til samstarfs næstu fjögur árin. Nýkjörin borgarstjórn fór á launaskrá í gær.
Dóra Björt Guðjónsdóttir oddviti Pírata leiðir viðræður þeirra ásamt Alexöndru Briem og segir viðræðurnar ganga vel.
Einhver stór ágreiningsmál komið upp?
„Ekkert sem við höfum ekki getað rætt og fundið út. Alla vega erum við mjög lausnarmiðuð og uppbyggileg í þessu samtali,“ segir Dóra Björt.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra sagði í fréttum Stöðvar 2 á dögunum tíma kominn til að dusta rykið af hugmyndum um byggingu nýrrar flugstöðvar við Reykjavíkurfluvöll.
Truflar þetta eitthvað ykkar viðræður?
„Nei. Það eru náttúrlega ýmis álitaefni sem koma upp í svona samtali og viðræðum. Það er eðilegt að ólíkir flokkar takist á um ýmis mál og þurfi að finna út úr þeim. Þetta er allt hluti af viðræðunum."
Er farinn að taka sig upp áberandi borgarstjórasvipur á sumum við borðið?
„Við erum öll rosalega borgarstjóraleg finnst mér.“
Þú værir til í að gegna embættinu?
„Að sjálfsögðu. Ég held að það sé ábyrgðarhluti að vera reiðubúin til þess. En það er ekki eitthvað sem við erum búin að ræða.“
Enginn farið og skellt á eftir sér hurðum?
„Nei, við erum svo kurteist fólk," segir Dóra Björt Guðjónsdóttir létt í bragði.