Innherji

Gangverk landar samningum við bandarískt stórfyrirtæki

Hörður Ægisson skrifar
Atli Þorbjörnsson og Óli Björn Stephensen eru meðal eigenda Gangverks.
Atli Þorbjörnsson og Óli Björn Stephensen eru meðal eigenda Gangverks.

Íslenska hugbúnaðarhúsið Gangverk hefur náð samningum um að hanna og þróa stafrænar lausnir fyrir bandarískan risa á sviði heimahjúkrunar, TheKey. Um er að ræða samstarf upp á mörg hundruð milljónir króna.

Hlutverk Gangverks verður í grunninn að færa alla starfsemi fyrirtækisins, og meðal annars viðkvæmar heilbrigðisupplýsingar, úr hefðbundnum tölvukerfum, símtölum og tölvupóstum yfir í nútímalegri tæknilausnir sem verða sniðnar að þörfum starfsmanna, viðskiptavina og fjölskyldumeðlimum þeirra.

Gangverk er leiðandi fyrirtæki á sínu sviði og er ef til vill þekktast fyrir áralangt samstarf sitt við elsta uppboðshús í heimi, Sotheby’s, en Gangverk þróaði alla stafræna umgjörð uppboðshússins. Í fyrra seldi Sotheby’s til að mynda fyrir jafnvirði tæplega 944 milljarða íslenskra króna og heildarupphæð tilboða sem boðin voru í gegnum uppboðsvél Gangverks var yfir tvær trilljónir íslenskra króna.

Lengi vel var uppboðshúsið eini kúnni Gangverks en undanfarið hefur íslenska hugbúnaðarfyrirtækið fært talsvert út kvíarnar. Síðastliðið ár hefur fyrirtækið samið við viðskiptavini á borð við lúxusferðaskrifstofuna Lindblad Expeditions, heilbrigðisþjónustufyrirtækið TheKey og Kviku banka.

Það má að minnsta kosti segja að það fari eitthvað púður í það á næstunni að auglýsa lausar stöður hjá Gangverki.

Atli Þorbjörnsson er einn eigenda Gangverks. „Við sjáum heilmikið tækifæri í þessu. Þetta er það sem Gangverk gerir best, að nýta tækni til þess að gera góðan rekstur enn betri og gera fyrirtæki í stakk búin til að takast á við áskoranir framtíðarinnar,“ segir hann.

„Það er algjörlega ljóst að nýsköpunarverkefnum á sviði heilbrigðisþjónustu mun fjölga verulega á næstu árum og við erum spennt fyrir því að þróa lausnir á þessu sviði. Það er einfaldlega mjög mikilvægt efnahagsmál samhliða hækkandi lífaldri fólks og síauknum kostnaði í heilbrigðismálum," útskýrir Atli.

Hjá Gangverki starfa nú rúmlega 100 manns við stafræna vöruþróun og fyrirséð að nú þarf að bæta hressilega í mannskapinn.

„Já, nú er ljóst að fyrirtækið þarf að stækka umtalsvert. Það sem er svo ótrúlega gaman við þessa vegferð er að Gangverk er að takast á við þróa lausnir í rauntíma - með rauntímagögnum og ákvörðunartöku. Það eru fá fyrirtæki á Íslandi sem hafa sömu tækifæri og Gangverk í augnablikinu, að taka þátt í að bylta rekstri risafyrirtækja á heimsmælikvarða með frumkvæði og tækni að vopni. Nú er bara að sjá hvort við finnum hæfileikana hér eða náum að þjálfa hana upp eða þurfum að færa út kvíarnar erlendis. Það má að minnsta kosti segja að það fari eitthvað púður í það á næstunni að auglýsa lausar stöður hjá Gangverki," segir Atli og hlær við.

Kristján Aðalsteinsson fer fyrir samstarfinu við The Key fyrir hönd Gangverks.

Kristján Aðalsteinsson fer fyrir samstarfinu við The Key fyrir hönd Gangverks og mun leiða um 25 manna teymi utan um verkefnið. „Þetta er stórt og mikið verkefni. Ein lausn sem Gangverk er að smíða mun breyta miklu í daglegu lífi allra sem snerta TheKey með einum eða öðrum hætti.”

Á árinu 2020 nam heildarvelta Gangverks, sem var stofnað af Atla árið 2010, um 1.250 milljónum króna og hagnaður fyrirtækisins var um 87 milljónir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×