Lögregla hefur staðfest við fréttastofu að mennirnir hafi verið tengdir með einhverjum hætti, en ekki viljað gefa upp hvers eðlis tengsl þeirra voru.
„Það eru einhver tengsl þarna á milli, en málið er í rannsókn og ég get ekki farið frekar út í það,“ segir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild lögreglu.
Ógnandi við nágranna
Samkvæmt heimildum fréttastofu býr maðurinn, sem er rétt rúmlega tvítugur, með móður sinni í húsinu. Hann hafi oft verið ógnandi við nágranna sína og sýnt mjög ofbeldisfulla hegðun gagnvart dýrum í hverfinu.
Í gær var lögreglu gert viðvart að minnsta kosti tvisvar sinnum um ofbeldisfulla hegðun mannsins og kannaði lögregla málið án þess að fjarlægja manninn af heimili sínu. Það var svo um kvöldmatarleyti sem grunur er um að hann hafi ráðist á nágranna sinn og barið hann til bana.
Samkvæmt heimildum fréttastofu á maðurinn við mikil geðræn veikindi að stríða. Lögregla mun í dag fara fram á gæsluvarðhald yfir honum.