Ekki síst nú, þegar öll umræða hefur aukist um hversu mikilvægt það er að okkur líði vel í vinnunni, séum að hvílast, séum meðvituð og svo framvegis.
En síðan er það fúli vinnufélaginn.
Já, það getur verið hægara sagt en gert að trekkja okkur upp í jákvæða orku og brosmildi þegar einhver sem við vinnum með alla daga er oft í fúlu skapi.
Pirringur, fýla, þögn, hundleiðinleg tilsvör...
Númer eitt, tvö og þrjú er að muna að þessar skapsveiflur hjá viðkomandi hafa ekkert með okkur að gera, en allt með það hvernig viðkomandi er að líða eða á hvaða stað hann/hún er í sínu lífi.
Hér eru nokkur ráð sem geta hjálpað.
Haltu ró þinni (og í jákvæðnina)
Þetta hljómar auðvelt en getur tekið á. Því þegar að við stuðumst eða pirrumst yfir hegðun og fýlu viðkomandi aðila, getur góða skapið okkar og jákvæðnin hreinlega horfið eins og dögg fyrir sólu og áður en við vitum af, er okkur farið að hitna í kinnum af pirring.
Sem er akkúrat það sem við viljum ekki.
Þannig að áskorun númer eitt er að halda ró okkar, svara aldrei í sömu mynd og umfram allt: Ekki falla í þá gryfju að taka þátt í baktali!
Oft er það meira að segja svo að góða skapið okkar og brosið getur komist langt með að sporna við fúlindum viðkomandi og því þeim mun mikilvægara að halda okkar ró og halda í okkar jákvæðu orku.
Að spyrja og sýna samkennd
Stundum höfum við reyndar þekkt viðkomandi svo lengi í vinnu að við nemum það að fýlan, neikvæðnin, pirringurinn og svo framvegis er í raun ekki að endurspegla þann einstakling sem við höfum þekkt í gegnum árin.
Þótt fýlan hafi verið áberandi síðustu vikur eða mánuði.
Þegar svo er, má alveg velta því fyrir sér hvort við ættum að sýna samkennd og stuðning með því að spyrja umræddan aðila um hans/hennar líðan, hvernig gangi, hvort eitthvað sé að og hvort það sé eitthvað sem við getum gert til að hjálpa.
Því öll getum við farið í gegnum erfið tímabil og það gæti átt við um þennan vinnufélaga þinn.
Að útskýra þína líðan
Ef þú opnar samtal við viðkomandi, til dæmis til að spyrja hvort það sé eitthvað að, er líka í lagi að útskýra hvernig neikvæða hegðunin, skapsveiflurnar eða fýlan er að hafa áhrif á þig.
Því stundum er það þannig að viðkomandi er ekkert að átta sig á þeim áhrifum sem neikvæðu skapsveiflurnar eru að hafa á fólkið í kring.
Ef allt annað þrýtur…
Ef þú metur það hins vegar svo að fýlan og pirringurinn er að hafa neikvæð áhrif á þig og alla aðra í teyminu dögum saman, jafnvel lengur, gæti verið réttast að leita til mannauðssviðs eða yfirmanns. Því það á enginn að hafa viðvarandi neikvæð áhrif á vinnufélaga hreinlega með því að vera fúlir og leiðinlegir.