Í tilkynningu frá Seltjarnarnesbæ segir að á fundinum hafi einnig verið ákveðið að Ragnhildur Jónsdóttir mun gegna embætti forseta bæjarstjórnar og að Magnús Örn Guðmundsson verður formaður bæjarráðs.
Í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum tryggði Sjálfstæðisflokkurinn sér áframhaldandi hreinan meirihluta í bæjarstjórn með fjóra fulltrúa af sjö. Þór var oddviti lista Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningarnar.
Þór var bæjarfulltrúi Seltjarnarnesbæjar á árunum 2006 til 2010. Hann var ennfremur formaður Umhverfisnefndar og fulltrúi Seltjarnarnesbæjar í stjórn Sorpu bs.. Þór hefur starfað við sölu – og markaðsstörf undanfarin ár lengst af við vátryggingar fyrirtækja og einstaklinga. Nú síðustu ár sem sölu- og verkefnastjóri hjá Rými.
Þór á ekki langt að sækja áhuga á bæjarstjórnarmálum en faðir hans, Sigurgeir Sigurðsson var sveitar- og bæjarstjóri Seltjarnarness í röska fjóra áratugi og lengst allra sveitarstjórnarmanna. Hann lét af störfum fyrir réttum 20 árum, vorið 2002.
“Mér þykir afar vænt um þessi tímamót og ég hlakka mikið til að starfa fyrir og með bæjarbúum og starfsfólki næstu árin. Sama má segja um samstarf við aðra bæjarfulltrúa og allt það góða fólk sem er að taka sæti í nefndum og ráðum bæjarins” er haft eftir Þór, nýjum bæjarstjóra Seltjarnarnesbæjar í fréttatilkynningu um ráðningu hans.