Svæðið er allt hið glæsilegasta en þar eru hvorki meira né minna en átta hlaupabrautir. Þar á meðal nýjasta gerð sem má nota á Ólympíuleikum eða heimsmeistaramóti. Þá eru tvær brautirnar upphitaðar og hægt að nýta þær allan ársins hring. Einnig er öllum velkomið að mæta en svæðið er hannað bæði fyrir keppnisfólk og almenning.
„Þetta er frábær völlur sem við erum búin að fá hérna og á eftir að skipta sköpum fyrir frjálsíþróttastarfið og almenningsíþrótta þátttöku í hverfinu og Reykjavík. Hér er nefnilega aðstaða bæði fyrir keppnisfólkið sem og almenning,“ sagði Þráinn í viðtali við Stöð 2 og Vísi.
ÍR-ingar hafa heldur betur staðið í uppbyggingu undanfarið en nýverið var ný íþróttahöll félagsins afhjúpuð.
„Hérna eru frjálsíþróttirnar í forgangi og komum ekki til með að deila þessu með fótboltanum enda stangast notkun þessara íþrótta á oft á tíðum. Þetta er bylting hvað það varðar, nú er frjálsíþróttastarfið í forgangi á þessum velli og í fyrsta skipti í Reykjavík.“
ÍR er í fyrsta skipti með alvöru aðstöðu fyrir frjálsar íþróttir, 115 árum eftir að æfingar hófust hjá félaginu. Innslag Sportpakka Stöðvar 2 um svæðið má sjá hér að neðan.