Við atkvæðagreiðslu á þinginu í dag gáfu tveir þingmenn stjórnarandstöðunnar í skyn að hagsmunir Kaupfélags Skagfirðinga hefðu ráðið för við gerð rammaáætlunar.
Ríkisstjórnin hefur sætt mikilli gagnrýni fyrir að færa Héraðsvötn í Skagafirði og Kjalöldur í Þjórsá úr verndarflokki í biðflokk. Stjórnarandstaðan gerði lokatilraun til að halda þessum virkjanakostum í verndarflokki rammaáætlunar í gær en sú tillaga var felld.
„Það er hlustað á vælið í Kaupfélagi Skagfirðinga“
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata og fyrrum þingmaður Vinstri grænna, sagði innviðaráðherra hafa komið í veg fyrir stækkun friðlands í Þjórsárverum „sem gerir einmitt Landsvirkjun kleift að keyra áróður fyrir Kjalölduveitu í gegnum þingið.“
Andrés gaf þá í skyn að Kaupfélag Skagfirðinga hafi haft áhrif á tilfærslu Héraðsvatna úr verndarflokki í biðflokk.
„Og það er hlustað á vælið í Kaupfélagi Skagfirðinga af því að það vill fá sína virkjun.“
„Hagsmunaöflunum er þjónað í tillögum meiri hlutans. Það er gerð pólitísk málamiðlun án faglegra og málefnalegra röksemda í þágu gjörnýtingarsinnanna. Og hver líður fyrir? Náttúra Íslands í boði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, gjörið svo vel,“ sagði Andrés er hann gerði grein fyrir atkvæði sínu gegn áætluninni.
KS og náttúruperlur í verndarflokk
Jóhann Páll Jóhannsson tók í sama streng við atkvæðagreiðsluna og sagði engin sannfærandi rök hafa verið færð fram fyrir tilfærslunni.
„Það má vera að Kaupfélag Skagfirðinga sé í sérstökum verndarflokki hjá þessari ríkisstjórn [Hlátur í þingsal.] en mér finnst að þessar náttúruperlur megi bara vera það líka.“
Ræður Andrésar og Jóhanns má sjá í heild sinni á vef Alþingis.