Þegar var vitað að norðurskautið hlýnar um þrisvar sinnum hraðar en jörðin að meðaltali. Rannsókn veðurfræðinganna leiddi í ljós að hlýnunin getur verið enn öfgafyllri á einstökum stöðum en menn töldu.
Meðalárshiti yfir Norður-Barentshafi hækkar þannig nú um allt að 2,7 gráður á áratug. Meðalhlýnun jarðar á þessari öld hefur verið um 0,32 gráður á áratug. Á haustin er hlýnunin enn hraðari á norðurslóðunum, allt að fjórar gráður á áratug.
„Við bjuggumst við því að sjá mikla hlýnun en ekki af þeirri stærðargráðu sem við fundum,“ segir Ketil Isaksen frá norsku veðurstofunni við breska blaðið The Guardian.
Rannsókn Isaksen og félaga hans byggðist á gögnum frá sjálfvirkum veðurstöðvum á Svalbarða og á Frans Jósefslandi. Gögnin frá þeim höfðu ekki áður farið í gegnum gæðaeftirlit eða verið birt opinberlega.
Niðurstaðan var að Norður-Barentshafssvæðið hafi hlýnað tvisvar til tvisvar og hálfu sinni hraðar en aðrir hlutar norðurskautsins og fimm- til sjöfalt hraðar en heimsmeðaltalið.
„Þessi rannsókn sýnir að jafnvel bestu mögulegu líkönin hafa vanmetið hraða hlýnunar í Barentshafi,“ segir Ruth Mottram frá dönsku veðurstofunni sem tók ekki þátt í rannsókninni.
Aðstæður í Barentshafi líkist nú meir Norður-Atlantshafi en Norður-Íshafinu. Ólíklegt sé að hafís þrauki þar mikið lengur.
Sterk fylgni reyndist á milli bráðnunar hafíss og loft- og sjávarhita í rannsókninni. Isaksen segir að hlýnunin hafi mikil áhrif á vistkerfi á norðurskautinu. Þá séu mögulega tengsl á milli hraðrar hlýnunar á norðurskautinni og veðuröfga sunnan heimskautsins.
Vísindamenn telja að hnattræn hlýnun vegar stórfelldrar losunar manna á gróðurhúsalofttegundum, fyrst og fremst með bruna á jarðefnaeldsneyti, gæti náð 2°C um miðja öldina og allt að 3,3°C til 5,7°C fyrir lok hennar verði lítið gert til að hefta losun.