Frá þessu er greint á samfélagsmiðlum Víkings. Hannes þarf ekki að kynna fyrir landsmönnum, enda einn albesti markvörður sem við höfum átt. Hannes er þessa stundina með Kára Árnasyni og fleirum á Spáni í brúðkaupi Jóhanns Bergs Guðmundssonar.
Hannes Þór Halldórsson hefur fengið félagaskipti yfir til Íslands- og bikarmeistara Víkings.
— Víkingur (@vikingurfc) June 17, 2022
Lestu meira hér: https://t.co/mWBLbpfnRs pic.twitter.com/OzbKQPc2zM
Hannes lék seinast fyrir Valsmenn hér á Íslandi eftir um það bil áratug í atvinnumennsku. Þá er Hannes leikjahæsti markvörður íslenska karlalandsliðsins í fótbolta frá upphafi, en hann á 77 leiki fyrir A-landsliðið. Með íslenska landsliðinu fór Hannes á tvö stórmót, EM 2016 og HM 2018, en frægast er líklega þegar hann varði vítaspyrnu frá Messi í 1-1 jafntefli Íslands gegn Argentínu á HM 2018.
Hannes hefur nú ákveðið að vera Víkingum innan handar eftir að aðalmarkvörður liðsins, Ingvar Jónsson, meiddist í landsliðsverkefni á dögunum. Uggi Auðunsson, markvörður 2. flokks Víkings er fótbrotinn og því hefur félagið fengið undanþágu til þess að semja við markvörð í ljósi aðstæðna.
Í yfirlýsingu Víkinga kemur þó fram að Þórður Ingason taki við keflinu af Ingvari á milli stanganna, en Hannes verður til takst ef þörf verður á fyrir komandi leiki liðsins í undankeppni Meistaradeildar Evrópu, Bestu-deildinni og Mjólkurbikarnum.