Þetta var því annar leikurinn í röð þar sem íslensku strákarnir bjarga sér fyrir horn, en Þorsteinn Leó Gunnarsson var hetja liðsins í gær þegar hann jafnaði metin gegn Svíum.
Íslensku strákarnir taka um þessar mundir þátt í Skandinavíumótinu sem er liður í undirbúningi liðsins fyrir EM í Portúgal sem hefst þann 7. júlí.
Leikur dagsins var jafn og spennandi frá upphafi til enda og íslenska liðið leiddi með einu marki þegar flautað var til hálfleiks, staðan 13-12.
Enn var jafnt á öllum tölum þegar komið var fram á lokamínútuna, en Anton Már Rúnarsson jafnaði metin í 24-24 þegar 59 sekúndur voru til leiksloka. Íslenska vörnin stóð seinustu sókn Norðmanna af sér og Anton Már fiskaði víti á hinum enda vallarins. Benedikt Gunnar fór á vítalínuna þegar leiktíminn var liðinn og tryggði íslensku strákunum nauman sigur.
Íslensku strákarnir hafa nú unnið einn leik og gert eitt jafntefli, en seinasti leikur liðsins er gegn Dönum á morgun.