Aðeins örfá verkanna hafa verið sýnd áður og nærri öll nýrri verkin eru unnin með nálaþæfingu á votþæfðan grunn. Öll þæfing er unnin í höndunum og þar koma vélar hvergi nálægt. Samkvæmt Heidi er allur efniviður lífrænn og hún notast eingöngu við ull og sápu en hluti ullarinnar er þó litaður af framleiðanda. Þessi verk eru í raun unnin fríhendis og engin litarefni eru notuð.

Endurnýtt efni
Nokkur verka sýningarinnar eru endurnýting á gallaefnum og öðrum vefjarefnum og flíkur á borð við gamlar gallabuxur öðlast nýtt líf. Verkin eru af ýmsum stærðum og gerðum en sum eru í þrívídd og þau allra umfangsmestu eru fjórir til sex fermetrar að stærð. Viðfangsefni verkanna tengist helst því sem heillar Heidi mest hér á Íslandi. Hún flutti fyrst til landsins í byrjun ársins 1972 og má segja að landið hafi heillað hana þar sem hún hefur búið hér síðan, þó með hléum.

Tímamót
Þessi listasýning markar ýmis tímamót í lífi listakonunnar. Heidi fagnað gullbrúðkaupi í sumar, verður sjötug næstkomandi janúar og í desember verða komin heil 40 ár frá því að hún hélt sína fyrstu einkasýningu í Ásmundarsal. Margt vatn hefur runnið til sjávar síðan þá en einkasýningarnar eru nú orðnar 25 og hafa farið fram á öllum Norðurlöndunum. Einnig hefur Heidi átt verk á 32 samsýningum víða um heiminn.
Sýningin stendur frá 9. - 31. júlí, verður opin alla daga frá klukkan 12:00-18:00, aðgangur er ókeypis og öll eru velkomin.