Forsetinn var vígreifur í ummælum sínum og sakaði Vesturlönd um að ætla að berjast við Rússa „til hins síðasta Úkraínumanns“. Það er í takt við önnur ummæli forsetans og annarra ráðamanna í Rússlandi um að Vesturlönd eigi í óbeinum átökum við Rússa í gegnum Úkraínu.
„Við heyrum að þeir vilji sigra okkur á vígvellinum. Hvað getur maður sagt, reynið það bara,“ hefur fréttaveitan Reuters eftir forsetanum rússneska.
Rússar réðust inn í Úkraínu þann 24. febrúar, eftir að hafa haldið því fram um margra vikna skeið að engin innrás stæði til. Meðal annars gerðu Rússar atlögu að Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, en sú sókn misheppnaðist.

Rússar hafa gefið margar ástæður fyrir innrásinni sem flestar halda litlu vatni og ber innrásin öll merki landvinningastríðs. Rússar ætluðu sér til að mynda að leggja undir sig allan suðurhluta landsins en voru stöðvaðir áður en þeir komust að hafnarborginni Odessa.
Mörg ummerki eru um að Rússar ætli sér að innlima þau landsvæði sem þeir hafa hertekið í Úkraínu. Pútín sjálfur sagði í síðasta mánuði að það væri réttur Rússa að stjórna Úkraínu og líkti hann sér við Pétur mikla. Þá hefur hann ítrekað sagt að Úkraína sé ekki raunverulegt ríki.
Sjá einnig: Rússar byrjaðir að innlima hluta Úkraínu í Rússland
Sagðir taka sér pásu eftir hernám Luhansk
Eftir mikil átök í grennd við Kænugarð hörfuðu hersveitir Rússa og síðan þá hafa Rússar einbeitt sér að Luhansk- og Donetsk-héruðum í austurhluta Úkraínu. Þar hafa Rússar sótt hægt og rólega fram með því að beita yfirburðum sínum í stórskotaliði með markvissum hætti.
Sjá einnig: Rússar halda uppi stöðugum árásum á íbúðahverfi
Vesturlönd hafa útvegað Úkraínumönnum vopn, þjálfun og upplýsingar, svo eitthvað sé nefnt.
Undanfarnar vikur hafa harðir bardagar geysað í austurhluta Úkraínu og eru bæði Rússar og Úkraínumenn sagðir hafa orðið fyrir gífurlegu mannfalli. Nú eru Rússar í austurhluta Úkraínu sagðir hafa tekið sér pásu og stöðvað sóknir sínar. Það hafi verið gert til að koma birgðum, hergögnum og liðsauka til þeirra hersveita sem hafa tekið þátt í átökunum skæðu síðustu vikur.
Hugveitan Institute for the study of war segir að í gær hafi varnarmálaráðuneyti Rússlands ekki gefið neitt út um nýjar sóknir eða landvinninga og að það hafi verið í fyrsta sinn í 133 daga, eða frá því innrásin hófst. Staðbundnar og misheppnaðar árásir hafi þó átt sér stað.
However, Russian forces still conducted limited and unsuccessful ground assaults across all axes on July 6. Such attempts are consistent with a Russian operational pause, which does not imply or require the complete cessation of active hostilities.
— ISW (@TheStudyofWar) July 6, 2022
Tölur um mannfall eru á miklu reiki og hvorki Úkraínumenn né Rússar birta tölur um mannfall úr eigin röðum en báðar fylkingar eru taldar hafa misst þúsundir og jafnvel tugi þúsunda manna. Rússar hafa þar að auki misst um tíu herforingja. Þá hafa tugir þúsunda óbreyttra borgara einnig fallið í árásum Rússa.
Sagði Rússa eiga mikið inni
Þrátt fyrir hægagang innrásarinnar og fregnir af manneklu í rússneska hernum gaf Pútín í skyn að Rússar ættu mikið inni og hefðu í raun ekki beitt sér af fullum krafti enn.
„Allir ættu að vita að, í rauninni, erum við rétt að byrja,“ sagði Pútín. Hann staðhæfði einnig að ríkisstjórn hans væri tilbúin til viðræðna og sagði að erfiðara yrði að hefja viðræður á nýjan leik, því lengur sem stríðið héldi áfram.
Viðræður milli Úkraínumanna og Rússa fóru um þúfur fljótt eftir að Rússar hörfuðu frá Kænugarði og ódæði rússneskra hermanna gegn óbreyttum borgurum á svæðinu urðu ljós.
Í yfirlýsingu Mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem birt var í vikunni sagði að árásir Rússa á óbreytta borgara í Úkraínu væru gegn alþjóðalögum. Búið væri að staðfesta rúmlega tíu þúsund dauðsföll borgara en í rauninni væru þau líklegast mun fleiri.
Litlar líkur á viðræðum á næstunni
Litlar líkur eru taldar á því að viðræður muni hefjast að nýju á næstunni þar sem báðar fylkingar telja sig geta unnið stríðið. Úkraínumenn vonast til þess að fjölmargir nýþjálfaðir hermenn og ný vopn frá Vesturlöndum muni gera þeim kleift að reka Rússa á brott og ná aftur tökum á þeim svæðum sem Rússar hafa hernumið.
Sjá einnig: Vestræn þungavopn loks farin að draga úr mætti Rússa
Mykhailo Podolyak, aðal samningamaður Úkraínu, tísti í vikunni þar sem hann sagði að meðal skilyrða fyrir vopnahléi væri að rússneskir hermenn hörfuðu, rússneskir stríðsglæpamenn yrðu framseldir til Úkraínu, að Rússar viðurkenndu fullveldi Úkraínu og greiddu ríkinu bætur.
Ceasefire. Z-troops withdrawal. Returning of kidnapped citizens. Extradition of war criminals. Reparations mechanism. sovereign rights recognition...The Russian side knows our conditions well. #Peskov s boss may not worry: the time will come and we will record them on paper.
— (@Podolyak_M) July 3, 2022