Haidai birti færslu á Telegram í morgun þar sem hann greinir frá ástandinu í Sievieródonetsk. Þar segir hann að borgin sé á barmi mannúðarhörmunga. Það sé ekkert miðlægt vatnsveitu-, gasveitu- eða rafveitukerfi í borginni og skolpveitur hafi einnig skemmst með þeim afleiðingum að skolp sé farið að safnast upp.
Þá segir Haidai jafnframt að um 80 prósent af húsnæði í borginni hafi eyðilagst eða orðið fyrir skemmdum. Það fólk sem snúi aftur til borgarinnar vegna eigna sinna segir hann að komi æ oftar að tómum íbúðum af því Rússar séu byrjaðir að stela öllum heillegum húsgögnum sem þeir komist yfir.
Hann segir að grunninnviðir borgarinnar séu nánast gjöreyðilagðir vegna stöðugra árása Rússa frá lokum febrúar og telur að Rússar muni ekki geta byggt borgina upp að nýju. Slíkt magn enduruppbyggingar tæki á friðartímum á bilinu sex mánuði upp í ár ef mannauður og efniviður væru til staðar en Rússar hafi hins vegar hvorugt, segir hann í færslunni.
Talið er að það séu allt að 15 þúsund úkraínskra borgara enn í borginni þó þær tölur hafi ekki verið staðfestar.