Klinkið

Laun forstjóra OR hafa hækkað um 28 prósent frá 2018

Bjarni Bjarnason, forstjóri OR.
Bjarni Bjarnason, forstjóri OR.

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, fékk staðfesta launahækkun í lok síðasta mánaðar þegar stjórn orkufyrirtækisins samþykkti tillögu starfskjaranefndar um að hækka laun Bjarna um 5,5 prósent frá 1. janúar 2022.

Launahækkunin í ár kemur í kjölfar tæplega 15 prósenta hækkunar í fyrra og 5,5 prósenta hækkunar á árinu 2019. Mánaðarlaun forstjórans, sem eru nú ríflega 3 milljónir króna auk bifreiðahlunninda, hafa því hækkað um 28 prósent frá árinu 2018 þegar þau námu tæplega 2,4 milljónum.

Þá fékk Bjarni eingreiðslu upp á 3 milljónir króna í fyrra þegar stjórnin bætti honum upp tapið af því að hafa ekki fengið endurskoðun á launakjörum á árinu 2020. Ráðningarsamningur hans kveður á um árlega endurskoðun. 

Eftir fréttaflutning af launahækkun og 3 milljóna króna eingreiðslu í fyrra sendi stjórnin út yfirlýsingu þar sem fram kom að laun forstjórans hefðu ekki hækkað umfram vísitöluhækkanir ef eingreiðslan væri tekin út fyrir sviga.

Jafnframt var vísað til könnunar sem sýndi að heildarlaun forstjóra í stóriðju- og veitustarfsemi annars vegar og hjá fyrirtækjum með yfir 40 milljarða króna árlega veltu hins vegar hefðu að meðaltali verið meiri en 4 milljónir króna á mánuði árið 2020. Samkvæmt eigendastefnu Orkuveitunnar eiga laun stjórnenda að standast samanburð við sambærileg störf.


Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.


Tengdar fréttir

Launaskrið ríkisforstjóra fékk blessun frá bankaráðsformanni

Það hefur gerst oftar einu sinni og oftar en tvisvar að rausnarlegar launahækkanir til handa háttsettum embættismönnum og ríkisforstjórum hleypi illu blóði í vinnumarkaðinn og kyndi þannig undir launahækkanir. Þetta er þrálátt og í senn hvimleitt vandamál fyrir atvinnulífið sem á mikið undir því að umsamdar hækkanir endurspegli hversu mikil verðmæti eru raunverulega til skiptanna.






×