Skoðun

Orkuþörf á Vestfjörðum

Anna María Daníelsdóttir skrifar

Uppbygging og orkuskipti 

Vestfirskt atvinnulíf er í sókn um þessar mundir. Á seinustu árum hafa nýjar atvinnugreinar byggst upp og styrkt samfélagið, bæði með fjölgun starfa og íbúa á svæðinu ásamt því að hafa styrkt efnahag svæðisins. Þessar nýju atvinnugreinar treysta á sterkari innviði en raforkukerfi fjórðungsins hefur dregist aftur úr þróun annara landshluta og þar með veikt samkeppnisstöðu svæðisins. 

Á næstu árum mun eftirspurn raforku aukast vegna fyrirhugaðra orkuskipta. Ef horft er til loftlagsmarkmiða stjórnvalda má gera ráð fyrir að aflþörf vegna orkuskipta á Vestfjörðum verði um 15 MW árið 2030. Árleg raforkuþörf í dag er um 44 MW en einnig má gera ráð fyrir aukalegum 20 MW vegna fólksfjölgunar og annarrar starfsemi. Því má gera ráð fyrir að eftirspurn eftir raforku á Vestfjörðum vaxi um 80% til 2030. Mikilvægt er að tryggja aðgengi að þessari orku svo vestfirskt samfélag geti tileinkað sér grænorkutækni og geti laðað að sér fyrirtæki og fólk sem sér tækifæri í nýtingu á grænni orku. 

Reglulega þarf að framleiða raforku með díselolíu fyrir heimilin á Vestfjörðum 

Raforkukerfið á Vestfjörðum þarf að styrkja hvort sem litið er til framleiðslu innan svæðisins eða flutningskerfi raforku. Helmingur þeirrar orku sem notuð er á svæðinu er innflutt og um helmingur er framleiddur innan svæðisins. Það kallar á hlutfalslega mikið varaafl sem framleitt er með díselolíu en reglulega þarf að framleiða raforku með díselvélum á Vestfjörðum. Lítil framleiðsla innan svæðis skapar líka áskoranir þegar kemur að kerfisstyrk sem takmarkar afhendingargetu flutningskerfisins. 

Hvernig geta Vestfirðir þróast áfram án grunninnviða?

Það liggur ljóst fyrir að auka verði afhendingaröryggi á raforku á Vestfjörðum eigi áframhaldandi uppbygging og orkuskipti að eiga sér stað. Hér er hægt að fara tvær leiðir. Annarsvegar að styrkja flutningskerfið og flytja meira af orku inn á svæðið og hinsvegar að framleiða meira af raforku innan svæðisins. Í skýrslu starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum kom fram að 20 MW virkjun innan svæðiðs myndi auka framboð af orku og auka afhendingaröryggi um allt að 90%. Slík virkjun myndi jafnframt auka kerfisstyrk sem gerir það að verkum að hægt er að flytja meira af raforku inn á Vestfirði. Ljóst er að vestfirsk samfélag, almenningur og fyrirtæki þurfa meira og betra aðgengi að endurnýjanlegri orku. Þannig verður hægt að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda, stuðla að verðmætasköpun, bæta búsetuskilyrði á Vestfjörðum og viðhalda byggðarþróun.

Heimild: Skýrsla starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum, Stjórnarráð Ísland

Höfundur er verkefnastjóri hjá Bláma. 




Skoðun

Sjá meira


×