Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að nefndin skuli vera sjálfstæð og óháð í störfum sínum. Henni verður heimilt að kalla eftir aðstoð og upplýsingum frá aðilum innan og utan stjórnkerfis borgarinnar við einstaka þætti athugunarinnar.
Kjartan Björgvinsson, héraðsdómari, verður formaður nefndarinnar en ásamt honum munu Urður Njarðvík, prófessor í barnasálfræði, og Ellý Alda Þorsteinsdóttir, félagsráðgjafi, eiga sæti í nefndinni. Starfsmaður nefndarinnar verður Trausti Fannar Valsson, lögfræðingur og dósent við Háskóla Íslands.
Fundir nefndarinnar verða lokaðir og eru nefndarmenn og starfsmaður bundnir þagnarskyldu um málefni er varða einkalíf fólks sem þeir fá upplýsingar um við störf nefndarinnar.
Miðað er við að nefndin ljúki störfum eigi síðar en 31. mars á næsta ári.