Fótbolti

Gagnrýnir hugarfarið: Leikmenn sem huga að brottför

Valur Páll Eiríksson skrifar
Tuchel var óánægður með sína menn.
Tuchel var óánægður með sína menn. EPA-EFE/Sergio Perez

Thomas Tuchel, þjálfari Chelsea, gagnrýndi leikmenn liðsins eftir 4-0 tap fyrir Arsenal í æfingaleik í Bandaríkjunum í nótt. Hann segir menn ekki vera með hugann við verkefnið.

Chelsea mætir Everton í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar þann 5. ágúst en Tuchel kveðst hreinlega efast um að sínir menn verði klárir í slaginn þegar að leiknum kemur.

„Ég er langt frá því að vera afslappaður, sagði Tuchel. Við vorum einfaldlega ekki nógu góðir. Við vorum ekki samkeppnishæfir.“

„Áhyggjuefnið er skorturinn á skuldbindingu leikmanna bæði líkamlega og andlega, sem var töluvert meiri hjá Arsenal en hjá okkur. Við höfum leikmenn sem eru að hugsa um að fara og skoða möguleika sína.“ sagði Tuchel.

„Þetta var klárlega ekki okkar sterkasta byrjunarlið, sem skýrir úrslitin að hluta en hitt er áhyggjuefni. Ég get ekki lofað því að við verðum reiðubúnir eftir tvær vikur.“

Kalidou Koulibaly spilaði sinn fyrsta leik fyrir bláklæddu eftir skipti sín frá Napoli. Tuchel segir hann hafa verið bjarta punktinn í leiknum.

„Hann var besti leikmaður okkar. Hann stóð sig stórkostlega, það verður að segjast.“ sagði Tuchel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×