Eftir að Fernando Alonso ákvað að skrifa undir samning við Aston Martin fyrir næsta tímabil þurfti Alpine að leita að eftirmanni Spánverjans. Hinn 21 árs gamli Piastri, ríkjandi meistari í Formúlu 2, virtist hafa verið valinn í hans stað og Alpine sendi frá sér tilkynningu fyrr í dag þar sem núverandi varamaðurinn var kynntur.
2023 driver line-up confirmed: Esteban Ocon 🤝 Oscar Piastri
— BWT Alpine F1 Team (@AlpineF1Team) August 2, 2022
After four years as part of the Renault and Alpine family, Reserve Driver Oscar Piastri is promoted to a race seat alongside Esteban Ocon starting from 2023. pic.twitter.com/4Fvy0kaPn7
Ökumaðurinn sjálfur virtist þó ekki hafa hugmynd um það að hann væri að fara að aka fyrir liðið á næsta tímabili. Hann hefur nú neitað því að hafa skrifað undir samning við liðið og segir í færslu á Twitter-síðu sinni að hann muni ekki aka fyrir Alpine á næsta tímabili. Piastri segir að Alpine hafi ekki fengið leyfi til að staðfesta samninginn.
I understand that, without my agreement, Alpine F1 have put out a press release late this afternoon that I am driving for them next year. This is wrong and I have not signed a contract with Alpine for 2023. I will not be driving for Alpine next year.
— Oscar Piastri (@OscarPiastri) August 2, 2022
„Ég sé að Alpine F1 hefur sent frá sér fréttatilkynningu án míns samþykkis þar sem kemur fram að ég muni aka fyrir þá á næsta ári,“ ritaði Piastri.
„Þetta er rangt og ég hef ekki skrifað undir samning við Alpine fyrir árið 2023. Ég mun ekki aka fyrir Alpine á næsta ári.“
Piastri hafði verið í viðræðum við McLaren áður en sæti hjá Alpine-liðinu losnaði. Framtíð Daniel Ricciardo hjá McLaren er í lausu lofti og því höfðu hinir ýmsu velt fyrir sér hvort Piastri væri að taka hans sæti í liðinu.
Alpine-liðið telur hins vegar að samningur Piastri við liðið geri honum skylt að aka fyrir liðið á næsta ári. Samkvæmt heimildum Sky Sports rann sú klásúla í samningi hans hins vegar út fyrir tveimur dögum, þann 31. júlí, en það hefur þó ekki enn verið staðfest af talsmönnum Alpine.