Veðurstofan greinir frá þessu en niðurstöður aflögunarlíkana sem gerð voru í dag benda til að kvikugangurinn undir Fagradalsfjalli liggi mjög grunnt eða í kringum einn kílómetra undir yfirborðinu.
Kvikuinnflæðið er nokkuð ört, en það er nálægt tvöfaldur hraði frá því sem var í aðdraganda fyrra goss í febrúar/mars 2021. Innskotið nú er með fram nyrðri hluta kvikugangsins frá í fyrra og nær frá miðju gangsins hálfa leið að Keili.
Skjálfti að stærð 5,0 í nótt
Mikil skjálftavirkni hefur verið á Reykjanesi seinustu sólarhringa og var óvissustigi almannavarna lýst yfir á laugardag vegna þessa. Klukkan 02:27 í nótt varð skjálfti að stærð 5,0 vestan við Kleifarvatn á sama stað og skjálftar hafa verið í kvöld og nótt.
Stærsti skjálftinn sem hefur mælst í yfirstandandi hrinu sem hófst síðastliðinn laugardag varð klukkan 17:48 á sunnudag. Hann var 5,4 að stærð en alls hafa 15 skjálftar yfir stærð 4 mælst og dreifa þeir sér um svæði frá Þorbirni að Kleifarvatni. Á fjórða tímanum í dag höfðu mælst tæplega 3 þúsund skjálftar með sjálfvirku staðsetningarkerfi Veðurstofunnar frá því að hrinan hófst á laugardag.