„Þetta gekk ágætlega í nótt, nema bara fólk var ekkert að hlusta nógu vel á okkur því veðrið versnaði og það var mikið af vanbúnu fólki að fara upp,“ segir Bogi Adolfsson formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík.
Hátt í fimm þúsund lögðu leið sína að gosstöðvunum í gær og einstaka ferðamenn slösuðust. Veðrið í gærkvöldi og nótt hafi ekki verið gott og skyggni sérstaklega slæmt á tímabili. Fólk þurfi að vera vel búið og helst með GPS tæki til að rata alla leið.

„Í gær endaði það þannig að það sást ekki á milli stika sem við erum búin að setja, við erum nú reyndar að fara í dag og þétta þær og reyna að gera eitthvað úr því,“ segir Bogi.
Hafiði orðið vör við það að fólk sé, þrátt fyrir aðvaranir, að fara þarna með börn og gæludýr?
„Jájájá, eins og ég segi túrisminn hefur kannski ekki pössun og ber oft á fólki í fjölskylduferðum.“
Þá hafi gengið illa að fá fólk til að leggja í bílastæðin sem komið var fyrir við Suðurstrandarveg í fyrra og fólk leggi enn í vegkantinn. Lögreglan á Suðurnesjum boðar aðgerðir vegna þessa.
„Ef ég skildi fréttatilkynningu lögreglunnar rétt þá eru þeir að fara að harka í það og munu sekta alla bíla sem leggja í vegkanntinum.“
Hann biðlar til fólks að fara varlega, þar sem það taki björgunarsveitina meira en klukkustund að komast á bíl upp að gosstöðvunum.
„Ef fólk lendir í að vera mikið slasað getum við lent í erfiðleikum með að flytja fólk af fjallinu.“
Á morgun er mikilli ofankomu spáð á svæðinu.
„Við erum að skoða það hvort við bara lokum,“ segir Bogi en ákvörðun um það verður tekin í dag.
„Miðað við hvernig veðurspáin er verðum við sjálfir í erfiðleikum með að athafna okkur.“