„Við höfum unnið að þessu verkefni í eitt og hálft ár og að mér vitandi er þetta eina þroskaleikfangið á íslenskum markaði sem bregst við leik barnsins á íslensku,“ segir Sigríður Fanney Gunnarsdóttir, sölu- og markaðsstjóri Gullskóga sem fer með umboð Chicco á Íslandi. Sigríður hafði sjálf frumkvæði að því að íslenskuvæða bóndabæinn.

„Chicco er ítalskt fyrirtæki sem stendur mjög framarlega í þróun á þroskaleikföngum með tali. Móðurfyrirtæki Chicco er læknavörufyrirtæki og þau hafa því aðgang að ýmsum sérfræðingum. Leikfangalínan þeirra er meðal annars þróuð í samstarfi við barnalækna og þroska- og iðjuþjálfa. Ég hafði samband við þau um að framleiða bóndabæinn með íslensku tali en þegar ég sagði þeim hvað við byggjum mörg á Íslandi leist þeim fyrst ekkert á það,“ segir Sigríður. Hún gafst þó ekki upp.
„Ég sagðist geta gert þetta sjálf ef þau leiðbeindu mér með framkvæmdina og þau voru til í það. Ég fékk íslenskan leiklistarnema til að tala inn á bóndabæinn en bærinn inniheldur yfir 50 orð, setningar, hljóð og lög á íslensku og ensku.“

Þroskaleikföngin frá Chicco njóta mikilla vinsælda og hefur bóndabærinn verið einna vinsælastur í línunni. Nota má bóndabæinn á þrjá mismunandi vegu eftir aldri barnsins. Hægt er að ýta á dýrin til að heyra dýrahljóðin, toga í sólina og hlusta á lög og smásögur eða fara í spurningaleik sem litli bangsinn með gula hattinn leiðir áfram. Spurningaleikurinn æfir bæði tölustafina og fræðir um dýrin og hvað þau „segja“.